Aðstoðaði elskhugann yfir Ermarsund

Beatrice Huret ásamt lögmanni sínum.
Beatrice Huret ásamt lögmanni sínum. AFP

Fyrrverandi stuðningsmaður frönsku Þjóðfylkingarinnar sleppur við refsingu fyrir að hafa aðstoðað íranskan elskhuga sinn við að komast yfir Ermasund, frá Frakklandi til Bretlands. Beatrice Huret, 44 ára, var fundin sek um að aðstoða Mokhtar, sem hún kynntist í flóttamannabúðunum í Calais, með því að kaupa fyrir hann 100.000 króna bát og hjálpa honum að komast frá Frakklandi í skjóli nætur.

Ákæruvaldið fór fram á að Huret yrði dæmd í árs skilorðsbundið fangelsi fyrir að aðstoða Mokhtar og stofna honum í hættu en dómstóllinn í bænum Boulogne-sur-Mer ákvað að hún skyldi hvorki sæta fangelsisrefsingu né vera gert að greiða sekt.

Huret sagði niðurstöðuna mikinn létti og hringdi samstundis í elskhuga sinn til að segja honum fréttirnar. Fyrir dómsuppkvaðninguna sagðist hún axla fulla ábyrgð á gjörðum sínum. „Ég er reiðubúin til að fórna lífi mínu fyrir hann,“ sagði hún um Mokhtar.

Mokhtar og ferðafélögum hans var bjargað af bresku strandgæslunni. Saksóknarinn í málinu sagði að það væri virðingarvert að sýna samhug en ekki gegn hvaða gjaldi né í hvaða aðstæðum sem er. Sagði hann Huret hafa stofnað mönnunum í hættu. „Við viljum ekki þurfa að hirða upp lík á ströndum Pas-de-Calais.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert