Dönsuðu á borðum og stunduðu kynlíf

Lögreglumennirnir höfðu verið sendir frá Berlín til þess að aðstoða …
Lögreglumennirnir höfðu verið sendir frá Berlín til þess að aðstoða við löggæslu á meðan G20-fundurinn fer fram í Hamborg. AFP

Rúmlega 200 lögreglumenn frá Berlín hafa verið sendir heim eftir að þeir héldu stærðarinnar veislu með miklu áfengi og kynlífi á almannafæri í Hamborg. Lögreglumennirnir höfðu verið sendir frá Berlín til Hamborgar til þess að hjálpa til á meðan ráðstefna G20-ríkjanna fer fram í borginni 7. og 8. júlí næstkomandi en búist er við tugum þúsunda mótmælenda til borgarinnar þessa daga.

Áður en lögreglumennirnir áttu að hefja störf í Hamborg héldu þeir villt partý þar sem þeim hafði verið úthlutað húsnæði. Sást þar m.a. fólk stunda kynlíf á almannafæri, pissa í hóp upp við vegg og sumir ákváðu að strippa á meðan þeir voru vopnaðir.

„Einn kvenkyns lögreglufulltrúi var að dansa á borði aðeins klædd slopp með vopn í höndunum,“ var haldið fram á miðlinum B.Z. sem birti myndir úr veislunni.

Lögreglan í Berlín staðfesti þetta vandræðalega atvik á Twitter og að lögreglumennirnir hafi verið sendir aftur til Berlínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert