Forseti Brasilíu ákærður fyrir mútur

Forsetinn neitar sök.
Forsetinn neitar sök. AFP

Saksóknari í Brasilíu hefur ákært forseta landsins, Michel Temer, fyrir að þiggja mútur. Honum er gefið að sök að hafa þegið peninga frá stjórnarformanni kjötframleiðslufyrirtækis sem flæktur er í spillingarmál. Temer sjálfur neitar sök.

Ákæran er lögð fram í kjölfar hljóðupptöku sem gerð var opinber, en þar heyrist í forsetanum ræða mútugreiðslur við Joesley Batista, stjórnarformann fyrirtækisins.

Ákæran er á borði hæstaréttar Brasilíu sem tekur ákvörðun um hvort málið verði sent til neðri deildar þingsins þar sem kosið verður um hvort það fari fyrir dóm. BBC greinir frá.

Forsetinn er mjög óvinsæll í Brasilíu en flokkur hans hefur haldið velli sem hluti af samsteypustjórn. Temer hefur aðeins gegnt forsetaembættinu í um ár, en hann tók við embættinu af Dilmu Rousseff, sem var að víkja úr starfi vegna gruns um embættisbrot.

Sjálfur hefur Temer verið til rannsóknar, grunaður um spillingu, fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir að vera félagi í skipulögðum glæpasamtökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert