Gefinn eftir fjögurra ára ánauð

AFP

Jawed var rænt af fyrrverandi foringja vígasveita í Shomali í Afganistan þegar hann var nýorðinn 14 ára gamall. Hann var kynlífsþræll foringjans í fjögur ár en þá yngdi eigandi hans upp og gaf félaga sínum Jawed. 

Hann er 19 ára í dag og sér fyrir sér með því að dansa í veislum og endar oft kvöldið á því að hann sængar hjá einhverjum veislugesta enda ekki um aðra atvinnumöguleika að ræða fyrir pilta eins og Jawed.

Aimal er einn þeirra þriggja ungu manna sem AFP ræddi …
Aimal er einn þeirra þriggja ungu manna sem AFP ræddi við í Afganistan. AFP

AFP-fréttastofan ræddi við þrjá unga menn sem eiga það sameiginlegt að hafa verið rænt og haldið í kynlífsánauð sem nefnist bacha bazi. Þar er ungum drengjum haldið sem kynlífsþrælum af háttsettum skæruliðaforingjum, herforingjum, stjórnmálamönnum og háttsettum mönnum innan lögreglunnar. Þykir það tákn um ábyrgð og völd að eiga slíkt leikfang, segir í umfjöllun AFP. 

Jawed er með gervibrjóst og klæddur kvenmannsfatnaði þar sem hann dansar á milli miðaldra heldri manna í Kabúl sem taka þátt í veislu. Hann er eitt af skemmtiatriðum kvöldsins og veit sem er að hann eyðir nóttinni með einhverjum þeirra. 

Hann slapp úr haldi á sínum tíma þegar sló í brýnu milli brúðkaupsgesta og skotbardagi hófst á milli veislugesta. Eigandi hans hafði tekið Jawed með í veisluna til þess að skemmta öðrum gestum.

„Það brjótast oft út slagsmál um hver fær að taka mig með heim eftir veislurnar,“ segir Jawed.

Eign á kynlífsleikfangi er stöðutákn í Afganistan og fara slík viðskipti oft fram innan háttsettra hermanna sem starfa í skjóli vestrænna ríkja. 

„Breyttu þér í konu“

Einn þeirra sem AFP-fréttastofan ræddi við reyndi í tvígang að sleppa úr haldi en náðist í bæði skiptin og var barinn til óbóta að launum. Gul var 15 ára þegar honum tókst að sleppa með því að flýja allslaus og berfættur frá kvalara sínum. Þá hafði honum verið haldið á lögreglustöð í Helmand í þrjá mánuði. 

En Gul getur ekki farið heim aftur því foreldrar hans og systkini hafa þurft að flýja heimili sitt af ótta við hefnd út af flótta Gul. 

„Breyttu þér í konu,“ sagði herforinginn við mig, segir Gul í samtali við AFP. Hann var látinn mála sig og ganga í kvenmannsfötum á lögreglustöðinni þar sem honum var haldið ásamt tveimur öðrum drengjum. Stundum rifust foringjarnir um hver þeirra væri sætastur. „Minn drengur er fallegri en þinn. Minn er betri dansari en þinn,“ segir Gul þegar hann lýsir lífi sínu sem kynlífsþræll.

Sumir drengjanna sjá enga aðra leið út úr þrælakistunni en að gera leynisamning við talibana um að ganga til liðs við vígasamtökin gegn því að kvalarar þeirra verði drepnir. 

Gul er heppinn að því leyti að fjölskylda hans hefur ekki afneitað honum líkt og algengt er í tilvikum sem þessum.

„Heiður fjölskyldunnar er eins og vatnsglas. Ef það fellur kusk þá eyðileggst það,“ segir Aimal sem var áður kynlífsþræll. Fjölskylda hans afneitaði honum og segir hann að ef hann hefði verið stelpa þá hefði fjölskyldan drepið hann. 

Að sögn skurðlæknis í Helmand, þar sem bacha bazi er algengt, kemur skömm oft í veg fyrir að foreldrar leiti til læknis með börn sín.

Ungur dansari í leyniveislu í Kabúl.
Ungur dansari í leyniveislu í Kabúl. AFP

„Algengt er að foreldrar komi með drengi sína til læknis og segi þá glíma við þarmavanda,“ segir læknirinn í samtali við AFP. „En við nánari rannsókn kemur í ljós að drengjunum hefur verið nauðgað og það þarf að sauma sárin saman. Foreldrarnir brotna oft saman og biðja um að drengjunum sé bjargað en ekki sé greint frá þessu opinberlega,“ segir hann.

Aimal var gefinn til herforingja í Kalkh-héraði eftir að hafa verið í haldi annars í mörg ár. Hann býr í Kabúl í dag þar sem hann berst fyrir réttindum slíkra drengja. 

Stjórnvöld í Afganistan hafa gefið það út að lagðar verði á sektir fyrir að halda drengjum í kynlífsánauð en ekki hvenær það verður gert. 

Þess í stað var farið í aðgerðir í Kabúl í febrúar þar sem lögregla réðst inn í bacha bazi-veislu og handtók drengina sem voru að dansa fyrir karlana. Karlarnir voru hins vegar ekki handteknir. Aimal segir þetta öfugsnúið. „Þessi menning að gera fórnarlambið að blóraböggli verður að hætta,“ segir hann. Þetta hefur þýtt að veislurnar fara mjög leynt og óttast Jawed að þetta endi með því að hann fái ekki lengur vinnu sem dansari og verði að lifa einvörðungu á vændi.

Jawed, en það er ekki hans rétta nafn, er 19 …
Jawed, en það er ekki hans rétta nafn, er 19 ára og starfar sem dansari. Hann var kynlífsþræll frá 14 ára aldri. AFP

„Konur eru til þess að ganga með börn en drengir veita unað,“ segir einn þeirra herforingja sem AFP-fréttastofan hefur rætt við um bacha bazi. Mannréttindasamtök segja að eitt af því sem geri það að verkum að slík iðja er jafnútbreidd og raun ber vitni sé skortur á samskiptum kynjanna í Afganistan. 

Á sama tíma og nauðganir og mök við unga drengi eru ólögleg í Afganistan virðist það ekki ná yfir bacha bazi þrátt fyrir nýleg lög þar í landi þar að lútandi. Drengirnir sem eru gerðir að leiksveinum eru yfirleitt á aldrinum 10 til 18 ára. Flestum er rænt en sumir eru seldir af sárafátækum foreldrum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert