Herskip með úreltan hugbúnað

HMS Queen Elizabeth heldur úr höfn í gær.
HMS Queen Elizabeth heldur úr höfn í gær. AFP

Margir hafa lýst áhyggjum sínum af því að nýtt flugmóðurskip Bretlands, HMS Queen Elizabeth, kunni að vera berskjaldað fyrir tölvuárásum eftir að greint var frá því að tölvukerfi þess keyrði á stýrikerfinu Windows XP. Stýrikerfið þykir úrelt þar sem hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft er hætt að senda frá sér öryggisuppfærslur vegna þess. 

Frétt mbl.is: Miklar tölvuárásir á bresk sjúkrahús

Herskipið, sem er það stærsta sem smíðað hefur verið fyrir breska sjóherinn, lét úr höfn í gær en til stendur að prófa skipið á hafi úti. Stefnt er að því að skipið verði tilbúið til notkunar síðar á þessu ári. Blaðamönnum var boðið að koma um borð áður en það hélt af stað og veittu þeir því athugli að á skjám skipsins kom fram að keyrt væri á Windows XP. 

Stutt er síðan tölvuárás var gerð meðal annars á heilbrigðiskerfi Bretlands þar sem gögn voru tekin í gíslingu og krafist lausnargjalds en tölvur sem viðkvæmar voru fyrir árásinni áttu það sameiginlegt að keyra á umræddu stýrikerfi. Sérfræðingar á sviði tölvuöryggismála hafa varað við því að fyrir vikið gæti flugmóðurskipið verið berskjaldað fyrir tölvuárásum.

Frétt mbl.is: Microsoft hættir stuðningi við Windows XP

Haft er eftir Alan Woodward, prófessor í tölvufræði við Háskólann í Surrey, að sé Windows XP notað sem stýrikerfi um borð í herskipinu fylgi því gríðarleg áhætta. Spyr hann enn fremur hvers vegna í ósköpunum tekin hafi verið ákvörðun um að setja úrelt stýrikerfi upp í nýju skipi sem gert væri ráð fyrir að yrði í notkun hjá sjóhernum áratugum saman.

Gefin hefur verið sú skýring að umræddur hugbúnaður hafi verið það besta sem völ hafi verið á þegar flugmóðurskipið var hannað árið 2004. Enn fremur að til standi að uppfæra hugbúnað skipsins innan áratugar. Breskir ráðamenn hafa fullyrt að öryggi skipsins sé tryggt og að sérfræðingar í tölvuvörnum verði um borð til þess að tryggja varnir þess.

Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph fjallar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert