„Hrokafullur og hættulegur“

"Hrokafullur og hættulegur" er algengasta skoðun fólks á Donald Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Meira en þrír fjórðu hlutar íbúa heimsins hafa lítið sem ekkert traust á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá Pew Research Center.

Um 4.000 manns tóku þátt í könnuninní 37 löndum. Að meðaltali 22% þeirra treysta á leiðtogahæfileika Trump á alþjóðavettvangi en 74% eða um þrír fjórðu þeirra hafa lítið sem ekkert traust á honum. Til samanburðar mældist forveri hans, Barack Obama, að meðaltali með 64% traust á sínum síðustu árum í embætti.

The Guardian greindi frá því í morgun að stuðningur Trump mælist nú minni en fyrrverandi Bandaríkjaforseta George Bush eftir innrásina í Írak árið 2004.

Hans helstu stefnumál mældust einnig óvinsæl meðal þátttakenda, þar á meðal áætlanir hans um að byggja vegg á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsáttmálanum og ferðabann íbúa sex ríkja þar sem múslímar eru í meirihluta. Þá sögðu tveir þriðju þátttakenda að Trump væri  „hrokafullur og hættulegur“.

Áhrif á orðspor Bandaríkjanna í heild

Könnunin sýnir hvaða áhrif Trump hefur á sýn heimsins á Bandaríkin í heild þar sem aðeins tæpur helmingur lýsti yfir jákvæðri sýn á landið í samanburði við 64% í fyrri skoðanakönnunum árið 2015 og 2016.

Aðeins í tveimur af 37 löndum mældist meirihlutinn hafa traust á forsetanum, í Ísrael og Rússlandi, en traust mældist lægst meðal þátttakenda í Suður-Ameríku og Evrópu, eða aðeins 14% og 18%.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mælist vinsælli en Trump á alþjóðavettvangi.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mælist vinsælli en Trump á alþjóðavettvangi. AFP

Könnunin bendir einnig til þess að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, komi í staðinn fyrir Bandaríkjaforseta sem sá stjórnmálamaður sem fólk lítur á sem leiðtoga á alþjóðavettvangi. Um allan heim sögðust 42% treysta henni og 60% innan Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert