Meinað að flytja Íraka úr landi

Flestir hinna handteknu eru kristnir og líf þeirra kunna að …
Flestir hinna handteknu eru kristnir og líf þeirra kunna að vera í hættu í heimalandinu. AFP

Bandarískur dómstóll hefur bannað yfirvöldum að senda íraska ríkisborgara úr landi þar sem hætt sé við því að þeir verði pyntaðir eða myrtir ef þeir snúa aftur til heimalandsins. Ákvörðun dómstólsins nær til 1.444 einstaklinga, þar af 85 sem flytja átti úr landi í dag.

Um er að ræða fólk sem hefur verið handtekið í aðgerðum gegn innflytjendum. Flestir voru teknir höndum í Michigan en einhverjir í Tennessee og Nýju-Mexíkó.

Hæstiréttur Bandaríkjanna heimilaði í gær ákveðna hluta ferðabanns ríkisstjórnar Donald Trump, sem miðar að því að meina ríkisborgurum sex múslimalanda að koma til Bandaríkjanna. Írak var á listanum en var fjarlægt í mars eftir að komist var að samkomulagi um að þarlend stjórnvöld tækju í staðinn við þeim sem vísað yrði úr landi vestanhafs.

Fleiri en 100 íraskir innflytjendur á sakaskrá voru handteknir í Detroit fyrr í þessum mánuði og hafa handtökurnar vakið nokkurn ótta meðal íraskra íbúa svæðisins.

Niðurstaða dómarans Mark Goldsmith sem tilkynnt var um í dag gefur hinum handteknu gálgafrest til að sýna fram á að líf þeirra séu í hættu í heimalandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert