Netárás í Úkraínu og víðar

Fyrirtæki um allan heim sæta netárás.
Fyrirtæki um allan heim sæta netárás. AFP

Fyrirtæki um allan heim senda nú frá sér tilkynningar þess efnis að þau hafi orðið fyrir netárás.

Fram kemur í frétt The Guardian að fyrstu tilkynningar um árásina komu frá Úkraínu þar sem meðal annars ríkisstjórnin, bankarnir, flugvöllurinn í Kiev og neðanjarðarlestakerfið hafa orðið fyrir áhrifum hennar.

Forsætisráðherra Úkraínu, Pavlo Rozenko, setti fyrr í dag mynd á Twitter sem sýndi svartan tölvuskjá og greindi frá því að tölvukerfi ríkisstjórnarinnar í heild sinni lægi niðri.

Árásin hefur að auki valdið truflunum í ýmsum fyrirtækjum um allan heim meðal annars danska flutningafyrirtækinu AP Møller-Maersk. Sautján flutningastöðvar sem fyrirtækið rekur í Hollandi og víðar hafa orðið fyrir árásinni. 

Sérfræðingar segja að árásin stafi af nýrri útgáfu af gíslatökuvírusnum Petya sem kallaður er Petrwrap. Gíslatökuvírus (e. ransomeware) er vírus sem slekkur á tölvukerfum og heimtar peningasummu til þess að koma þeim aftur í gang. 

Árásin kemur í kjölfarið á WannaCry-vírusnum sem réðst að tölvum í yfir 150 löndum í síðasta mánuði, þar á meðal hjá National Health Service í Bretlandi, símafyrirtækinu Telefónica á Spáni og lestakerfi Þýskalands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert