Notendur Facebook orðnir tveir milljarðar

Vörumerkið Facebook er orðið eitt þekktasta vörumerki heims.
Vörumerkið Facebook er orðið eitt þekktasta vörumerki heims. AFP

Fjöldi notenda á samfélagsmiðlinum Facebook er orðinn meiri en tveir milljarðar. Þetta tilkynnti Mark Zuckerberg, stofnandi fyrirtækisins, á notandaaðgangi sínum í dag. 

„Frá og með þessum morgni telur Facebook-samfélagið tvo milljarða manns!“ skrifaði Zuckerberg. „Við erum að ná árangri í að tengja heiminn og nú skulum við færa fólk nær hvert öðru.“

Zuckerberg stofnaði Facebook árið 2004 og átta árum síðar bættist milljarðasti notandinn við. Það tók því önnur fimm ár að tvöfalda fjöldann.

Þessum öra vexti hafa fylgt margar áskoranir, Facebook hefur þurft að bæta við ýmsum eiginleikum til þess að tapa ekki notendum til samkeppnisaðila eins og Snapchat. Í samstarfi við önnur fyrirtæki vonast fyrirtækið til þess að hefja þáttagerð og verða þættirnir sýndir á síðunni sjálfri. Varaforseti fyrirtækisins hefur sagt að búist sé við að fyrstu þættirnir verði sýndir undir lok sumars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert