Ríkið dæmt ábyrgt að hluta

Dómararnir við áfrýjunardómstólinn í morgun.
Dómararnir við áfrýjunardómstólinn í morgun. AFP

Hollenskur áfrýjunardómstóll dæmdi í dag hollenska ríkið ábyrgt að hluta á dauða 350 múslímum þegar þjóðarmorðin voru framin í Srebrenica árið 1995. Ríkinu er gert að greiða hluta af skaðabótum til fórnarlambanna.

Niðurstaðan er í flestum meginatriðum á sama veg og niðurstaða undirréttar árið 2014. Niðurstaðan er að sögn Gepke Dulek dómara að hollensku friðargæsluliðarnir hafi vitað að karlar og drengir væru í alvarlegri hættu þegar flóttafólkið var skilið að. Að jafnvel væri hætta á að þeir yrðu teknir af lífi.  

Tæplega átta þúsund múslímar, karlar og drengir, voru teknir af lífi í þjóðarmorðunum árið 1995. 

13. júlí 1995 réðust hersveitir Bosníu Serba gegn léttvopnuðum hollenskum friðargæsluliðum sem reyndu af veikum mætti að verja þúsundir flóttamanna sem höfðu flúið inn í herstöð þeirra. Enda töldu þeir að herstöð Sameinuðu þjóðanna væri öruggt skjól.

Bæði hollenska ríkið og ættingjar fórnarlambanna áfrýjuðu niðurstöðu hollenska dómstólsins sem dæmdi hollenska ríkið ábyrgt á dauða 350 manna sem voru sendir í burtu frá herstöðinni ásamt fleiri flóttamönnum. 

Niðurstaða áfrýjunardómstólsins er að hollenska ríkið beri ábyrgð á að greiða 30% af miskabótum til ættingja fórnarlambanna. Talið var óvíst hvort þeir hefðu lifað af ef þeir hefðu dvalið áfram inni í herstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert