May stenst fyrstu prófraunina í þinginu

May á þinginu í dag. Boris Johnson fylgist með.
May á þinginu í dag. Boris Johnson fylgist með. AFP

Ríkisstjórn Theresu May stóðst sína fyrstu prófraun í dag þegar atkvæði voru greidd á breska þinginu um tillögu Verkamannaflokksins um að aflétta umdeildum aðhaldsaðgerðum. Íhaldsflokkurinn hafði nauman sigur og felldi tillöguna með 323 atkvæðum gegn 309 en niðurstaðan endurspeglar nýja stöðu á þinginu í kjölfar kosninganna fyrr í mánuðinum.

Íhaldsmenn, með May í fararbroddi, hugðust auka meirihluta sinn í kosningunum en mál þróuðust á annan hátt eftir að Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, tókst að fá kjósendur á sitt band með því m.a. að lofa því að auka fjárfestingar í opinbera geiranum.

May þarf nú að reiða sig á stuðning 10 þingmanna DUP á Norður-Írlandi til að koma málum í gegn.

Jeremy Corbyn talaði fyrir tillögu Verkamannaflokksins, sem var felld með …
Jeremy Corbyn talaði fyrir tillögu Verkamannaflokksins, sem var felld með naumum meirihluta atkvæða. AFP

Í tillögum Verkamannaflokksins fólst m.a. afnám launaþaks opinberrra starfsmanna og aukið fjármagn til handa löggæslu- og viðbragðsyfirvöldum. 

Áður en gengið var til atkvæðagreiðslu hélt Corbyn því fram að aðhaldsaðgerðir stjórnvalda hefðu átt þátt í harmleiknum í Grenfell-turninum, þar sem að minnsta kosti 79 létust í eldsvoða. Vísaði hann m.a. til niðurskurðar á fjárframlögum til slökkviliðsins og staðaryfirvalda, sem bera ábyrgð á úttekt bygginga.

Samkvæmt nýlegri könnun vilja 48% Breta að skattar verði hækkaðir til að mæta auknum opinberum útgjöldum. Heimildarmenn úr innsta hring May gáfu til kynna fyrir atkvæðagreiðsluna að til greina kæmi að draga úr aðhaldsaðgerðum en skrifstofa forsætisráðherra sagði síðar að engin stefnubreyting hefði átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert