Norður-Írar að falla á tíma

Gengið framhjá kosningaskiltum fyrir bresku þingkosningarnar, í Belfast á kjördag, …
Gengið framhjá kosningaskiltum fyrir bresku þingkosningarnar, í Belfast á kjördag, 8. júní. AFP

Vonir um að hægt verði að blása lífi í hina tvískiptu heimastjórn Norður-Írlands, sem talin er hornsteinn friðar í landinu, fara óðum dvínandi nú þegar aðeins einn dagur er til stefnu.

Stjórnarmyndunarviðræður tveggja stærstu stjórnmálaflokkanna, Sinn Féin annars vegar og Sambandssinna (DUP) hins vegar, hafa staðið yfir í þrjá mánuði en að því er virðist hvorki gengið né rekið á þeim tíma.

Lögum samkvæmt, ef flokkunum tekst ekki að mynda stjórn fyrir klukkan fjögur síðdegis á morgun að staðartíma, eða klukkan 15 að íslenskum tíma, mun Norður-Írland þess í stað þurfa að lúta stjórnvöldum í Lundúnaborg.

Og fresturinn er ekki einu sinni svo langur, heldur þyrftu flokkarnir að ná samkomulagi í dag til að geta með góðu móti tilnefnt nýja ráðherra á norður-írska þinginu á morgun.

Vilja leyfa samkynja hjónabönd

Núgildandi fyrirkomulag, sem tók gildi með samningum þann 2. desember 1999, batt endi á blóðug og harðvítug átök þar sem á fjórða þúsund manns hafði látið lífið og hátt í fimmtíu þúsund særst. Í því felst að stærstu flokkar andstæðu fylkinganna tveggja, lýðveldissinna og sambandssinna, koma saman og mynda heimastjórn þar sem völdum er dreift á báða bóga.

Sviptingar og vantraust innan síðustu stjórnar leiddu til þingkosninga sem haldnar voru 2. mars síðastliðinn, þar sem Íhaldssami sambandssinnaflokkurinn DUP marði sigur á andstæðingum sínum í Sinn Féin. 

Formaður samninganefndar DUP, Edwin Poots, gaf í skyn fyrr í dag að viðræðurnar gangi ekki vel.

„Ég get ekki sagt að þær séu auðveldar en samt sem áður viljum við koma þinginu aftur í gang,“ segir hann í samtali við fréttastofu AFP.

DUP og Íhaldsflokkurinn náðu samkomulagi gegn því að Norður-Írland fengi …
DUP og Íhaldsflokkurinn náðu samkomulagi gegn því að Norður-Írland fengi sérstaka fjárveitingu úr ríkissjóði. AFP

Sinn Féin sakar DUP á sama tíma um að neita að gefa nokkuð eftir af kröfum sínum.

„DUP hefur ekki hvikað í neinum af þeim málaflokkum sem eru rótin að þessum ógöngum,“ segir formaður Sinn Féin, Declan Kearney.

Sinn Féin vill að sett verði lög um írska tungumálið, samkynja hjónabönd verði leyfð og loks að leiðtogi DUP, Arlene Foster, verði ekki fyrsti ráðherra Norður-Írlands á ný.

DUP heldur því hins vegar fram að Sinn Féin hafi dregið írska tungumálið í umræðuna á pólitískum forsendum, auk þess sem flokksmenn DUP hafna því að styðja samkynja hjónabönd. Þá segjast þeir alls ekki munu leyfa andstæðingum sínum að velja hver verði og hver verði ekki fyrsti ráðherra landsins.

Fá einn milljarð punda

Í Lundúnum hefur Theresa May, leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands, náð samkomulagi við DUP um að flokkurinn muni verja ríkisstjórn hennar falli. Í staðinn mun Norður-Írland fá úthlutað einn milljarð breskra punda, eða sem nemur um 134 milljörðum íslenskra króna, á næstu tveimur árum.

En án starfhæfrar heimastjórnar verður það ríkisstjórn Theresu May sem ákveður hvert peningarnir fara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert