Sek um morð á föður

Héraðsdómur Västmanlands.
Héraðsdómur Västmanlands. Af vef héraðsdóms Västmanlands

Rúmlega fertug kona var í héraðsdómi Västmanland í Svíþjóð í dag fundin sek um að hafa myrt föður sinn og reynt að drepa móður sína í ágúst í fyrra. Henni er gert að sæta geðrannsókn áður en dómur verður kveðinn upp.

Móðir konunnar var í fyrstu handtekin grunuð um að hafa myrt eiginmann sinn, en konan fannst særð við hlið líksins í sumarhúsi þeirra í Arboga í Svíþjóð.

Frétt mbl.is: Ekki lengur grunuð um morðið

Johanna Möller, 42 ára, er einnig talin bera ábyrgð á dauða eiginmanns síns, en hann fannst látinn í vatni skammt frá sumarhúsinu í Arboga sumarið 2015.

Fyrrverandi unnusti Möller, Mohammad Rajabi, var einnig dæmdur sekur um morðið og morðtilraun í Arboga í fyrra og er honum gert að sæta geðrannsókn áður en refsingin verður kveðin upp. Möller var jafnframt dæmd fyrir fleiri brot í héraðsdómi í dag.

Niðurstaða dómsins þykir ásættanleg bæði af hálfu verjenda þeirra sem og lögreglu.

Mikið hefur verið fjallað um málið í sænskum fjölmiðlum, en í ágúst 2015 drukknaði eiginmaður Möller í vatni skammt frá sumarbústað fjölskyldunnar. Ári síðar urðu foreldrar hennar fyrir hrottafenginni hnífaárás í sumarbústaðnum. Faðir hennar lést af völdum sára sinna en móðir hennar særðist alvarlega. 

Rajabi, sem er tvítugur, játaði að hafa stungið foreldra Möller en að hún hefði látið hann fá hnífinn og hvatt hann til verksins. Talið er að ástæðan sé afbrýðisemi og peningar en Möller var einnig dæmd sek um fjársvik, fölsun, mútur og hótanir. 

Við réttarhöldin neitaði Johanna Möller sök en fyrstu rannsóknir geðlækna benda til þess að hún glími við alvarlegar geðraskanir. 

Frétt SVT

Frétt SvD

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert