Skylda borgaranna að flýja

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. AFP

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur fullvissað hermenn sína um að hann muni vernda þá frá ákærum ef þeir verða „óvart“ almennum borgurum að bana í baráttu sinni gegn bardagamönnum tengdum Ríki íslams.

Duterte hefur skipað hernum að útrýma bardagamönnunum, sem réðust gegn borginni Marawi 23. maí sl. Um 400 bardagamenn og almennir borgara hafa látist í átökum í borginni síðan þá.

Í dag sóttu yfirvöld sautján lík til viðbótar. Talið er að um sé að ræða almenna borgara sem voru drepnir af bardagamönnunum á svæðum í Marawi sem nú eru undir stjórn hersins.

Duterte sagði í ræðu í sjónvarpi að hermenn sínir ætluð sér aldrei að drepa almenna borgara en þeir ættu ekki að hika við að berjast við bardagamennina þrátt fyrir að almennir borgarar væru nærri.

Það væri skylda borgaranna að flýja eða leita skjóls.

Forsetinn lýsti yfir herlögum í suðurhluta landsins til að takast á við ástandið í Marawi og hefur varað við því að ef baradagamennirnir láti til sín taka víðar muni hann grípa til frekari aðgerða.

Hann kynni m.a. að gefa löggæsluyfirvöldum vald til að handtaka fólk án sérstakrar heimildar.

„Skipun mín til ykkar er þessi: Ef einhver heldur á byssu og hann er ekki hermaður, hann er ekki lögreglumaður; dreptu hann bara. Það er fyrirskipun mín, því þeir munu drepa okkur,“ sagði Duterte þegar hann ávarpaði hermenn sína.

Mannréttindasamtök hafa lýst fyrsta ári Duterte í embætti sem „mannréttinda-hörmungum“.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert