„Ofbeldi mun aldrei leysa vandamál“

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. AFP

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fordæmdi í dag morð sem framin hafa verið í landinu undir því yfirskyni að verið sé að vernda kýr. Mikill meirihluti Indverja er hindúatrúar en þeir telja kýr heil­ög dýr. Morðin hafa beinst gegn múslimum og öðrum minnihlutahópum í landinu.

„Dráp í nafni Gaou Bhakti (kúadýrkunar) er ekki ásættanleg. Þetta er ekki eitthvað sem Gandhi myndi samþykkja,“ sagði Modi.

Ummæli ráðherrans koma nokkrum dögum eftir að æstur múgur réðst á Junaid Khan, 15 ára gamlan múslimskan dreng, og stakk hann til bana. Fólkið sakaði Khan og bróður hans um að hafa nautakjöt í fórum sínum.

Samkvæmt tölum frá Amnesty International hafa í það minnsta tíu múslímar verið myrtir af hópi fólks síðan í apríl. 

Mótmæli fóru fram í mörgum borgum Indlands í kjölfar morðsins á Khan en skipuleggjendur mótmælanna kölluðu eftir því að ofbeldinu myndi linna. Slagorð mótmælanna var „ekki í mínu nafni.“

Modi sagðist hafa áhyggjur af andrúmsloftinu í landinu þessa dagana. „Enginn hefur rétt til að taka lögin í eigin hendur. Ofbeldi hefur aldrei og mun aldrei leysa nein vandamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert