Áreksturinn hugsanlega sjálfsmorðstilraun

Í Flå búa aðeins um 1.000 manns.
Í Flå búa aðeins um 1.000 manns. Mynd/Wikipedia

Lögreglu í Flå í Buskerud-fylki í Noregi rak í rogastans þegar hún kom að manni á þrítugsaldri á níunda tímanum í gærmorgun sem sat fastur í bíl sínum eftir harðan árekstur og greindi formálalaust frá því að hann hefði myrt kærustu sína í sumarbústað foreldra hans örskömmu áður. Norska ríkisútvarpið NRK hefur greint ítarlega frá málinu í gær og í dag.

Ökumaðurinn sagði ekki mikið meira, þar sem sjúkraflutningamenn þurftu að svæfa hann hið bráðasta og halda honum sofandi í rúman sólarhring vegna ástands hans, en upplýsti þó lögreglu um að sumarbústaðurinn væri um átta kílómetra frá, í Hallingdal þar í fylkinu en þar er vinsælt sumarbústaða- og útivistarsvæði.

Játaði fyrr í kvöld

Út frá skilríkjum mannsins tókst að finna út hverjir foreldrarnir væru og hvar þeir ættu bústað og voru lögreglumenn þegar sendir á staðinn. Þar reyndist lík rúmlega tvítugrar konu sem fljótlega fékkst staðfest að hefði verið kærasta ökumannsins.

Ástand ökumannsins reyndist ekki alvarlegt en hann var vakinn af svefni sínum í dag og situr nú í yfirheyrslu hjá lögreglu, grunaður um að hafa ráðið kærustu sína af dögum en fyrr í kvöld (kl. 18:55 að íslenskum tíma) var greint frá því í seinni kvöldfréttatíma norska ríkisútvarpsins NRK að maðurinn hefði játað að það „hljóti að hafa verið hann“ sem framdi ódæðið.

Fjöldi vitna, sem dvöldu í öðrum sumarbústöðum á svæðinu, hafa sætt yfirheyrslum síðan í gær en að sögn Per Thomas Omholt hjá lögreglunni í suður- og austurlandsumdæmi vinnur lögreglan nú meðal annars út frá þeirri kenningu að árekstur hins grunaða hafi verið tilraun til sjálfsvígs í kjölfar morðsins. Par sem var í hinum bílnum slapp ómeitt en hefur einnig mátt sitja í yfirheyrslum í dag þar sem reynt er að fá fram hvort aksturslag hins grunaða styðji þessi kenningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert