OJ Simpson reynir að fá reynslulausn

AFP

Fyrrverandi ruðningshetjan og leikarinn OJ Simpson kemur nú fyrir nefnd sem ákveður hvort hann fái reynslulausn, eftir að hafa setið í níu ár í Nevada-fangelsinu. Nái hann að sannfæra nefndina um að hann eigi skilið að fá lausn, getur hann losnað úr fangelsi í haust. Simpson, sem er orðinn sjötugur, segist hafa afplánað sinn dóm.

Simpson var dæmdur í 33 ára fangelsi árið 2008 fyrir að hafa rænt tveim­ur mönn­um sem sér­hæfðu sig í sölu íþrótta­m­inja­gripa og haldið þeim á hót­el­her­bergi í Las Vegas. Simp­son hélt því fram að hann hefði verið að ná í gripi sem stolið hafði verið af hon­um.

Árið 1995 var hann sýknaður af því að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína, Nicole Brown Simp­son, og Ron Goldm­an. Tveim­ur árum síðar tapaði hann einka­máli sem fjöl­skyld­ur fórn­ar­lambanna höfðuðu á hendur honum. 

Til að losna úr fang­elsi í haust þarf Simp­son að sann­færa fjóra af sjö nefnd­ar­mönn­um, sem hlusta á beiðnir um reynslu­lausn, um að hann hafi haldið sig frá áfeng­is- og eit­ur­lyfja­neyslu í fang­els­inu og hafi ekki „lent í slæm­um fé­lags­skap“. 

Fundi Simpson með nefndinni er sjónvarpað beint og einn nefndarmaður spurði hvort hann hefði farið á betrunarnámskeið síðan hann sótti síðast um reynslulausn, en Simpson neitaði því. Hann hafi hins vegar tekið annað námskeið í því hvernig eigi að nota valmöguleika en ofbeldi í erfiðum aðstæðum.

Í frétt BBC um málið segir að sérfræðingar telji góða möguleika á því að hann fái reynslulausn vegna góðrar hegðunar í fangelsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert