Rændu fjárhirslur Rómaborgar

Saksóknarinn Giuseppe Cascini ræðir hér við lögfræðing Massimo Carminati, Bruno …
Saksóknarinn Giuseppe Cascini ræðir hér við lögfræðing Massimo Carminati, Bruno Giosue Naso, við upphaf réttarhaldanna. AFP

Dómstóll í Róm á Ítalíu dæmdi í dag þá Massimo Carminati og Salvatore Buzzi, leiðtoga glæpagengis sem starfaði í anda mafíunnar, í 20 og 10 ára fangelsi. Þeir Carminati og Buzzi rændu fjárhirslur Rómaborgar, en málið er talið eitt umfangsmesta skipulagða glæpamál sem upp hefur komið í borginni.

Carminati, sem áður tilheyrði hinu alræmda Magliana-glæpagengi, og Buzzi voru meðal 46 annarra sakborninga í svonefndu „Höfuðborgar-mafíu“-máli sem hófst 2015. Þeir hafa í kjölfarið orðið eins konar táknmyndir spillingar í Róm og ítalskar sjónvarpsstöðvar voru með beina útsendingu frá dómsuppkvaðningunni.

Carminati, sem missti annað augað í skotbardaga við lögreglu á níunda áratugnum, var sakaður um krækja sér í ábatasama samninga á vegum borgarinnar, m.a. rekstur miðstöðva fyrir flóttamenn, með því að koma koma sér vel við starfsmenn ráðhúss Rómar.

Rannsóknin er, að sögn Reuters, sögð hafa opinberað þá miklu spillingu sem viðgangist með samskiptum stjórnmálamanna, embættismanna, kaupsýslumanna við mafíuna sem noti þá til að krækja sér í ábatasama samninga með almannafé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert