360 slösuðust í skjálftanum í Tyrklandi

Tæplega 360 manns í tyrkneska ferðamannabænum Bodrum slösuðust í jarðskjálfta upp á 6,7 sem varð úti fyrir strönd landsins í nótt. Áður hefur verið greint frá því að tveir hafi látið lífið í kjölfar skjálftans á grísku eyjunni Kos og hundrað slasast.

Ahmet Demircan, heilbrigðisráðherra Tyrklands, segir 358 hafa slasast og þar af hafi 272 verið fluttir með sjúkrabíl á spítala. Aðrir leituðu sér sjálfir aðhlynningar á spítala. 25 manns eru enn á spítala og sagði Demircan suma þeirra hafa brotið bein. Engin meiðslanna væru þó alvarleg.

Tyrkneska NTV-sjónvarpsstöðin segir marga hafa meiðst við að hoppa út um glugga í skjálftanum eða vegna annarra hræðsluviðbragða. Margir hinna slösuðu fengu aðhlynningu í garði sjúkrahússins í Bodrum, þar sem loft spítalans varð fyrir nokkrum skemmdum í skjálftanum að því er tyrkneska dagblaðið Hurriyet hefur eftir Bekir Yilmaz, héraðsstjóra Bodrum.

Hann lét þá í ljós létti yfir að enginn hefði dáið í Tyrklandi í kjölfar skjálftans, en annar ferðamannanna sem lést á Kos var Tyrki. Þá er einn Tyrki sagður hafa slasast alvarlega á Kos og var hann fluttur á sjúkrahús í Aþenu.

Þessi bíll skemmdist í Bodrum er flóðbylgja sem kom í …
Þessi bíll skemmdist í Bodrum er flóðbylgja sem kom í kjölfar skálftans bar hann með sér. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert