Bandaríkin banna ferðir til Norður-Kóreu

Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum ætla að banna þegnum sínum að ferðast til Norður-Kóreu samkvæmt upplýsingum frá tveimur ferðaþjónustufyrirtækjum sem starfa þar í landi. Koryo Tours og Young Pioneer Tours segja að bannið verði tilkynnt 27. júlí og taki gildi 30 dögum seinna. 

Bandaríkjamenn hafa ekki staðfest þessar fregnir. 

Young Pioneer Tours er fyrirtækið sem bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier ferðaðist með til Norður-Kóreu. Hann var handtekinn þar í landi og dæmdur til 15 ára vistar í fangabúðum. Einu og hálfu ári eftir dóminn, í júní á þessu ári, var hann sendur aftur til Bandaríkjanna og var þá í dái. Hann lést nokkrum dögum seinna. 

BBC greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert