Lík listamanns grafið upp

Grafhvelfing listamannsinis Salvador Dalí var opnuð í gærkvöldi og DNA …
Grafhvelfing listamannsinis Salvador Dalí var opnuð í gærkvöldi og DNA sýni tekin úr beinum og tönnum hans. Sýnin verða borin saman við DNA sextugrar konu sem heldur því fram að hún sé einkadóttir litamannsins fræga. AFP

Lík listamannsins Salvador Dalí hefur verið grafið upp í þeim tilgangi að taka úr því DNA sýni að ósk sextugrar konu sem heldur því fram að hún sé dóttir listamannsins.

Dalí, sem lést árið 1989, er grafinn í hvelfingu undir safni sem hann hannaði sjálfur í Figueres í Katalóníu. The Guardian greinir frá því að þegar síðustu gestir safnsins voru farnir í gærkvöldi var 1,5 tonna þung steinplata sem liggur yfir gröfinni fjarlægð svo að sérfræðingar gætu tekið sýni úr beinum og tönnum listamannsins.

Þetta staðfesti hæstiréttur Katalóníu í gærkvöldi. Sýnin verða svo tekin til Madrid þar sem þau munu vera borin saman við DNA úr Pilar Abel sem segist hafa orðið til vegna samræðis móður sinnar og Dalí árið 1955.

Samkvæmt spænskum lögum á Abel rétt á fjórðungi af auði listamannsins ef í ljós kemur að hún sé í raun einkabarn hans. Gala – Salvador Dalí stofnunin reyndi ítrekað að koma í veg fyrir að uppgröfturinn ætti sér stað en án árangurs. Dómari gaf leyfi til aðgerðarinnar í lok síðasta mánaðar.  

Hún hefur reynt að sanna faðerni sitt síðustu 10 ár en árið 2007 fékk hún leyfi til þess að taka DNA-sýni úr húð og hári listamannsins en þau sýni reyndust ófullnægjandi. Ári síðar fékk hún sýni frá vini og ævisöguritara Dalí, Robert Descharnes, en segist aldrei hafa fengið niðurstöður úr seinni tilrauninni. Sonur Descharnes sagði í samtali við Efe-fréttastofuna að hann hafi fengið það staðfest frá lækni að niðurstöðurnar hafi verið neikvæðar.

Búast má við niðurstöðunum eftir einn til tvo mánuði og segir Abel að hún hlakki til að sannleikurinn komi loks fram. „Ég er ekki stressuð heldur ánægð og bjartsýn.“

Spænski listamaðurinn Salvador Dalí lést árið 1989 og er grafinn …
Spænski listamaðurinn Salvador Dalí lést árið 1989 og er grafinn í hvelfingu undir safni sem hann hannaði sjálfur í Figueres í Katalóníu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert