Ættleiða drengi og þjálfa í að berjast

Kínverskur drengur á göngu Jiangsu héraði í kína. 500.000 munaðarleysingar …
Kínverskur drengur á göngu Jiangsu héraði í kína. 500.000 munaðarleysingar voru í Kína í lok árs 2015. AFP

Myndband sem sýnir tvo 12 ára kínverska drengi berjast í búri fyrir blandaðar bardagaíþróttir (MMA) hefur vakið upp miklar deilur á kínverskum samfélagsmiðlum um örlög munaðarleysingja í landinu.

MMA bardagaklúbbur, í borginni Chengdu í suðvesturhluta Kína, hefur ættleitt hundruð drengja sem misstu foreldra sína ungir að árum og elur þá nú upp og þjálfar í blönduðum bardagaíþróttum.

Myndbandið sem um ræðir, er hluti af stuttri heimildamynd sem sýnd var á kínversku streymisveitunni Pear Video. Það hefur nú hlotið mikla útbreiðslu á samfélagsmiðlum, en þar sjást tveir ungir drengir berjast í átthyrndu járnbúri svo á þeim sjást áverkar.

Annar drengurinn slær hinn niður og heldur áfram að lemja hann í skrokk og höfuð, þar sem sá liggur samanhnipraður á gólfinu og reynir að verja sig.

„Berjast um örlög sín“

Fyrirsætur í bikinítoppum og stuttbuxum hvetja þá áfram og maður með míkrófón sér um að skapa stemningu hjá áhorfendum og segir drengina „berjast um örlög sín“.

Í heimildamyndinni segir einn stofnenda En Bo bardagaklúbbsins að embættismaður hjá því ráðuneyti sem sér um málefni munaðarleysingja hafi komið með flesta drengjanna í klúbbinn.

Flest barnanna eru sögð tilheyra minnihlutaþjóðarbrotum, m.a. Tíbetum.

Ríkisdagblaðið Beijing News, sakaði bardagaklúbbinn um að misnota börnin. „Nutu þau réttarins til menntunar sem lög kveða á um á sama tíma og þau voru í stífri þjálfun og kepptu í þessum hörðu bardögum?“ er spurt í leiðarablaðsins.

Öruggur og fær nóg að borða

Hart hefur þá verið deilt um málið á Weibo, kínversku útgáfunni af Twitter.

„Það er ólöglegt að gera út og nota ungmenni til að taka þátt í svona sýningu, sem auk þess er ofbeldiskennd, og synja þeim um laun á sama tíma,“ skrifar Chen Ming á Weibo. Aðrir fullyrða að án klúbbsins þá hefðu þessir drengir endað á götunni og mögulega leiðst út í glæpi. 

Hinn 14 ára Xiaolong segir í heimildamyndinni að hann sé ánægður með að vera öruggur og að fá nóg að borða. „Við höfum allt hér – mat, föt og stað að búa á. Maturinn hér er miklu betri en heima. Hér er bæði kjöt og egg, en heima get ég bara fengið kartöflur,“ sagði Xiaolong.

Munaðarleysingjar í Kína voru 500.000 í lok árs 2015 og eru innan við 20% þeirra á munaðarleysishælum á vegum ríkisins. Þá eru einungis um 5% munaðarleysingja ættleiddir samkvæmt nýjustu tölum frá yfirvöldum. Hver örlög hinna barnanna eru er óljóst.

Árið 2012 fundust fimm heimilislausir drengir látnir í ruslatunnu í Guizhou héraði. Þeir höfðu kveikt eld í tunnunni til að halda á sér hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert