Fótboltinn óhollur „verðandi mæðrum“

Liðið hennar Lily Parr var ótrúlegt. Það hét Dick, Karr-fótboltalið …
Liðið hennar Lily Parr var ótrúlegt. Það hét Dick, Karr-fótboltalið kvenna og var sigursælt á fyrstu árum þriðja áratugarins. Skjáskot/Channel 4

Á þriðja áratug síðustu aldar var fótbolti kvenna vinsælli en karla í Bretlandi. Dæmi voru um að tæplega 60 þúsund áhorfendur fylgdust með leikjum en ágoðinn af miðasölu rann til góðgerðarmála. En hvers vegna í ósköpunum bannaði breska knattspyrnusambandið svo kvennaleikina?

Sagan af þessu hefur hingað til ekki verið á allra vörum. Á miðvikudag, fyrir leik Englands og Skotlands á EM kvenna í fótbolta, var hins vegar frumsýnd heimildarmynd á Channel 4 þar sem hulunni er svipt af málinu. Myndin heitir Þegar fótboltinn bannaði konur (When Football Banned Women) og er eftir Clare Balding. (Myndina má sjá í heild hér að neðan).

Í myndinni er sjónum beint að Dick, Kerr-fótboltaliði kvenna sem varð til í kringum starfsmenn skotfæraverksmiðju í Preston á þriðja áratug síðustu aldar. Balding hefur verið heilluð af sögu þess og kvennaboltans í tvo áratugi og myndin er ávöxtur þeirrar ástríðu.

Úlnliðsbraut markmann

Fyrirliði liðsins var skrautlegur persónuleiki, Lily Parr að nafni. Henni fannst sopinn góður og reykti eins og strompur. Parr var lesbía og faldi ekki kynhneigð sína og sambúð kærustu sinni, sem var vissulega óvenjulegt á þessum árum. Hún var einstaklega skotfastur framherji og voru skot hennar kennd við fallbyssukúlur. Sagnfræðingurinn Gail Newsham segir í mynd Balding að karlkyns atvinnumarkmaður hafi eitt sinn verið að ögra Parr og sagt að hún gæti ekki skorað mark hjá sér. Hún tók áskoruninni og braust úlnlið hans með skoti sínu, að því er sagan segir.

Lily Parr var einstakega skotföst og er eitt sinn sögð …
Lily Parr var einstakega skotföst og er eitt sinn sögð hafa úlnliðsbrotið markmann sem skoraði hana á hólm. Skjáskot/Channel 4

Í fyrra stríði voru breskir karlmenn á vígvellinum mánuðum saman og leikjum félagsliða karla var aflýst. Því óx kvennaboltanum fiskur um hrygg og þúsundir flykktust á leikina.

Einn þeirra er sögulegur. Þá lék Dick, Kerr-liðið á Goodison Park fyrir framan 53 þúsund áhorfendur. Uppselt var á leikinn og þurftu um 14 þúsund áhugasamir frá að hverfa. Aðeins nokkrum mánuðum síðar, eða í desember árið 1921, lýsti breska knattspyrnusambandið því hins vegar yfir að fótbolti hentaði konum ekki og að ekki ætti að hvetja þær til þess að spila hann. Þá sagði stjórn knattspyrnusambandsins að „of lítill“ hluti miðaverðs á leikjum færi til góðgerðarmála. Og þar með var kvennaboltanum úthýst.

Háskólaprófessorinn Jean Williams segir að þarna hafi peningar verið farnir að ráða ferðinni. „Knattspyrnusambandið vildi fá eitthvað af peningunum og vildi koma þeim í karlaboltann.“ Williams segir að bannið hafi haft miklar afleiðingar. Konur máttu ekki lengur spila á völlum á vegum knattspyrnusambandsins og urðu því að spila sína leiki annars staðar; í almenningsgörðum og á hundasvæðum. Þetta varð til þess að konunum fannst þær vera útundan. „Þetta var fyrirlitleg aðferð til að reyna að gera lítið úr vinnu kvenna á styrjaldarárunum.“

Vildu berja niður verkalýðsbaráttuna

Sagnfræðingurinn Ali Melling segir að bannið hafi verið pólitískt. Kvennaliðin hafi safnað fyrir námuverkamenn sem voru í verkfalli en ekki særða hermenn. Það hafi fallið mörgum illa. Reynt var að berja verkalýðsbyltinguna á bak aftur og bannið hafi verið liður í því. Hann segir konur hafa haldið samfélaginu gangandi með vinnuframlagi sínu. Þær hafi svo notað fótboltann til að safna peningum fyrir verkafólkið. „Kvennaboltinn varð of stór og of hratt,“ segir Melling og bendir á að flestar fótboltakonunnar hafi verið fátækar verkakonur. „Þetta þótti of hættulegt og þetta hræddi fólk.“

Bannið hélt í fimmtíu ár

Balding heldur því fram í kvikmynd sinni að kvennaboltinn hafi ekki enn náð sér á strik eftir þennan skell fyrir tæpri öld síðan. Konur eigi enn erfitt uppdráttar í íþróttinni og skammist sín jafnvel fyrir að spila. „Ég sagði engum frá þeirri staðreynd að ég spilaði fótbolta því ég hélt að fólk myndi dæma mig,“ segir Casey Stoney, fyrrverandi fyrirliði kvennaliðs Englands í fótbolta. Balding spyr ungar fótboltastúlkur hver séu þeirra fyrirmyndir. Þær nefna aðeins karla.

Fram kemur að Wayne Rooney fái meira greitt fyrir einn og hálfan dag en fyrirliði kvennaliðs Englands fær á heilu ári.

Bannið hélt í fimmtíu ár eða allt til ársins 1971. „Fréttin“ um að fótbolti hentaði ekki konum er gott dæmi um að „falskar fréttir“ eru ekki nýjar af nálinni. Í yfirlýsingu knattspyrnusambandsins kom fram að spörk og árekstrar inni á fótboltavellinum væri ekki holl fyrir „verðandi mæður“. Þetta var svo notað í rökstuðningnum til að banna þeim að spila á völlum og leikvöngum félaga innan sambandsins.

Erfitt er að segja til um hvenær áhrifin af banninu voru nákvæmlega. Myndu fleiri konur spila fótbolta ef það hefði ekki verið sett á? Myndu fleiri sækja leiki þeirra og myndu þær fá meiri tekjur? Balding telur í það minnsta að áhrifin séu einhver og að konur eigi betra skilið.

Hetjan Parr hefur fengið viðeigandi stað í sögunni með mynd Balding. Í henni mátar Balding skó Parr sem enn eru drullugir eftir síðasta leikinn sem hún lék árið 1951.

Greinin er byggð á fréttum af vef Telegraph sem má lesa hér og hér.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert