Sextán ára „brúður Ríkis íslams“ í haldi

Stúlkan er frá þýska bænum Pulsnitz og er aðeins sextán …
Stúlkan er frá þýska bænum Pulsnitz og er aðeins sextán ára. AFP

Sextán ára þýsk stúlka, sem grunuð erum að hafa gengið til liðs við vígamenn Ríkis íslams í Írak, var handtekin í Mósúl í síðustu viku. Þetta herma heimildir AFP-fréttastofunnar.

Í málsgögnum sem AFP-hefur undir höndum er stúlkan kölluð Linda W og er sögð hafa búið í bænum Pulsnitz í nágrenni Dresden í Þýskalandi. Hún er enn í haldi í Írak en nýtur aðstoðar þýska sendiráðsins þar í landi. 

Þýskir fjölmiðlar greindu frá því í vikunni að íraskir hermenn hefðu handtekið táning í síðustu viku ásamt nokkrum öðrum stúlkum sem kallaðar voru „brúðir Ríkis íslams“. Stúlkurnar voru handteknar í jarðgöngum þar sem þær höfðu leitað skjóls. Þar fundust einnig vopn, m.a. sprengjubelti.

Linda W. hvarf sportlaust á síðasta ári eftir að hafa sett sig í samband á netinu við menn sem tengdust Ríki íslams. 

Í þýska blaðinu Der Spiegel í dag segir að Linda W. hafi verið flutt til Bagdad ásamt þremur öðrum þýskum konum. Þar hafi þær verið yfirheyrðar. Vígamenn Ríkis íslams voru hraktir frá borginni Mósúl fyrir nokkrum dögum og lögðu þá á flótta út í eyðimörkina í nágrenni borgarinnar. 

Í frétt Spiegel segir að írösk yfirvöld hafi látið þýska sendiráðinu í té lista yfir nöfn þýsku kvennanna. Síðan þá hefur starfsmaður sendiráðsins heimsótt þær í fangelsið á Bagdad-flugvelli þar sem þeim er haldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert