Átta fundust látnir í flutningabíl

Lögreglumenn á vettvangi við flutningabílinn á bílastæðinu við Walmart í …
Lögreglumenn á vettvangi við flutningabílinn á bílastæðinu við Walmart í nótt. Skjáskot

Átta manns fundust látin í stórum flutningabíl á bílastæði við Walmart-verslun í San Antonio í Texas í dag. Yfirvöld telja að um fórnarlömb mansals sé að ræða. Smygla hafi átt fólkinu ólöglega inn til Bandaríkjanna.

William McManus, lögreglustjóri í San Antonio, og slökkviliðsstjórinn Charles Hood sögðu á blaðamannafundi að 28 til viðbótar hafi fundist slasaðir eða særðir í bílnum, þar af tuttugu alvarlega. Í hópnum eru bæði börn og fullorðnir.

Fólkið var flutt til meðferðar á nokkrum sjúkrahúsum á svæðinu.

„Þegar við komum á vettvang fundum við átta látna inni í flutningabílnum,“ sagði McManus á blaðamannafundinum. Hann sagði vettvanginn hafa verið hroðalegan. Loftræsting í flutningabílnum var óvirk og því talið að fólkið hafi kafnað. Ökumaður flutningabílsins hefur verið handtekinn.

Hann sagði að á öryggismyndavélum hefðu ökutæki sést koma á svæðið og sækja nokkra sem voru inni í bílnum. „Við erum að rannsaka mansal,“ sagði lögreglustjórinn um málið.

McManus sagði ekki ljóst hversu margir hefðu verið færðir úr bílnum á lífi. 

Starfsmaður hjá Walmart tilkynnti lögreglunni um að stórum vöruflutningabíll hefði verið lagt á bílastæðið. Bað hann um að lögreglan mundi kanna málið nánar. Lögreglustjórinn sagði að maður hafi komið frá bílnum í átt að starfsmanninum og beðið um vatn. Starfsmaðurinn færði honum vatn en hringdi svo strax á lögregluna.

San Antonio er í nokkurra klukkustunda akstursfjarlægð frá landamærunum að Mexíkó. Mjög heitt og þurrt hefur verið í veðri á þessum slóðum að undanförnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert