Hinn aldargamli Vatnsdómstóll Valencia

Sögu dómstólsins má rekja til 10. aldarinnar, hið minnsta.
Sögu dómstólsins má rekja til 10. aldarinnar, hið minnsta. AFP

Átta menn í svörtum kuflum sitja í hring fyrir utan dómkirkjuna í Valencia og fylgjast með á meðan réttarþjónninn kallar á ákærða. Mennirnir skipa Vatnsdómstól Valencia, aldargamla stofnun, sem Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hefur sett á lista yfir „óáþreifanlegar menningarminjar“.

Á aðeins örfáum mínútum, og án nokkurrar pappírsvinnu, úrskurðar dómstóllinn í deilum er varða áveitumál á hinum frjósömu sléttum umhverfis Valencia, þriðju stærstu borg Spánar.

Uppruna dómstólsins má rekja aftur til 10. aldarinnar, hið minnsta, þegar svæðið var undir stjórn múslima og hin gotneska dómkirkja sem dómstóllinn fundar við var moska.

Dómurinn hlýðir á mál er varða stuld á vatni, sem er verðmæt auðlind þar sem þurrkar geta sett stórt strik í reikninginn, eða deilur er varða túlkun þeirra reglna sem fjalla um áveitukerfið á svæðinu.

Erjur koma upp allan ársins hring en eru tíðari þegar þurrkar standa yfir, þegar áveitureglurnar öðlast sérstakt gildi og eftirlit er haft með vatnsnotkun, að sögn sagnfræðingsins Daniel Sala, sem er sérfróður um sögu Vatnsdómstólsins.

Porta dels Apostols, þar sem dómstóllinn kemur saman.
Porta dels Apostols, þar sem dómstóllinn kemur saman. Wikipedia

Hraðvirkt réttlæti

Nýlegt mál var höfðað af Vicent Marti, sem hefur stundað vistvænan búskap í 30 ár. Hann leitaði til dómstólsins þegar hann tók eftir því að vatnið á búgarðinum var mengað sementögnum og málningu, sem iðnaðarmenn höfðu losað út í áveitukerfið við endurbætur hjá nágrannanum.

Eftir að hafa hlýtt á deiluaðila, og eftir að hafa ráðið ráðum sínum stutta stund, tilkynnti forseti dómstólsins að sökin væri nágrannans. Hefðum samkvæmt gaf hann samþykki sitt til kynna með því að segja „rétt“ og var í kjölfarið sektaður um 250 þúsund krónur.

„Mér fannst leiðinlegt að tilkynna þetta því við erum nágrannar en ég átti ekki annarra kosta völ,“ sagði Marti í samtali við AFP.

Á búgarðinum framleiðir Marti vistvænar vörur en framleiðslan þarf að uppfylla strangar gæðakröfur. Allur reksturinn var undir, segir hann.

Allir úrskurðir eru endanlegir

Í dag skipa átta dómarar dómstólinn, allir karlmenn, en þeir eru kjörnir af þeim 10.000 bændum sem nota áveitukerfið á sléttunum umhverfis Valencia.

Áveitukerfið skiptist niður í átta hluta og hvert svæði á einn dómara við dómstólinn. 

Þeir hittast í hádeginu hvern fimmtudag fyrir utan Porta dels Apostols-dómkirkjuna, sem geymir kaleik úr gulli sem sagður er sá sem Jesú drakk úr við síðustu kvöldmáltíðina.

„Réttarhöldin“ fara fram á valensísku, fyrir framan íbúa og ferðamenn.

Allir úrskurðir eru endanlegir og óáfrýjanlegir. Dómar dómstólsins „hafa verið virtir af einræðisherrum, forsetum, konungum; öllum,“ segir Sala.

Mikill mannfjöldi, íbúar og ferðamenn, safnast jafnan saman til að …
Mikill mannfjöldi, íbúar og ferðamenn, safnast jafnan saman til að fylgjast með störfum dómstólsins. AFP

Vilja ekki sjá „steingerða“ stofnun

Tvær ógnir steðja að ræktun í Valencia og þar af leiðandi tilvist dómstólsins: hversu mikið ræktarland er að víkja fyrir byggð og síhækkandi meðalaldur íbúa.

Enrique Navarro, 44 ára bóndi, gagnrýnir að meirihluti dómaranna sé eldri en 60 ára. Hann segir nauðsynlegt að ný kynslóð taki við, til að koma í veg fyrir að stofnunin úreldist.

Af hundruðum vatnsdeilna sem koma upp á hverju ári rata aðeins 20-25 til Vatnsdómstólsins. Suma fimmtudaga sitja dómararnir aðgerðalausir fyrir utan dómkirkjuna. 

Margir bændur veigra sér við að mæta með mál fyrir dómstólinn vegna mannfjöldans sem safnast saman til að fylgjast með.

Að sögn Enrique Aguilar, varaforseta Vatnsdómstólsins, leysast um 90% allra deilumála með sáttum, stundum rétt áður en dómararnir koma saman.

„Við reynum að haga þessu þannig að enginn þurfi að koma hingað,“ segir hann fyrir utan dómkirkjuna. Stundum er nóg að hóta því að skjóta málum til dómstólsins.

„Úti á ökrunum er hinn ásakaði stoltur, segist ekki ábyrgur. En þegar hann kemur hingað biður hann þess að málum sé miðlað,“ segir Manuel Ruiz, forseti Vatnsdómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert