Lofar að stoppa lekann úr Hvíta húsinu

Anthony Scaramucci talsmaður Hvíta hússins ætlar að reka þá sem …
Anthony Scaramucci talsmaður Hvíta hússins ætlar að reka þá sem ræða við fjölmiðla án leyfis. AFP

Anthony Scaramucci, sem tók við stöðu samskiptastjóra Hvíta hússins á föstudag, hét því í dag að stöðva allan upplýsingaleka. „Eitt af því fyrsta sem ég vil gera er að stöðva lekana,“ sagði Scaramucci í samtali við Fox-sjónvarpsstöðina.

Fjöldi frétta bandarískra fjölmiðla undanfarna mánuði hefur átt rætur sínar í upplýsingaleka úr Hvíta húsinu.

„Þetta er Washington, þannig að það verður ómögulegt að stöðva þá alla. Ég tel þó að það sem á sér stað núna sé verulega ófaglegt og þjóni ekki forsetanum,“ sagði Scaramucci. „Ég mun grípa til afdrifaríkra aðgerða til að stöðva þessa leka.“

Í viðtali við aðra bandaríska fjölmiðla upplýsti Scaramucci að með afdrifaríkum aðgerðum ætti hann við að hann myndi reka alla þá sem reyndust ræða við fjölmiðla án heimildar.

„Ef þeir vilja halda áfram að starfa þar, þá verða þeir að hætta að leka,“ sagði Scaramucci í viðtali við CBS-sjónvarpsstöðina.

Frá því að Trump tók við embætti í janúar á þessu ári hefur verið óvenjumikið um leka á upplýsingum úr Hvíta húsinu, sem hefur ítrekað vakið reiði forsetans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert