Múrar enn á vígvelli Vandræðanna

Við götuna Falls Road í vesturhluta Belfast voru Vandræðin sérstaklega …
Við götuna Falls Road í vesturhluta Belfast voru Vandræðin sérstaklega skæð. Þar voru sett upp hlið til að girða hverfið af. Þau standa enn og er enn lokað og læst á nóttunni. mbl.is/Sunna

Múrinn sem aðskilur hverfi kaþólikka og mótmælenda í norðurírsku borginni Belfast var reistur við lok 7. áratugar síðustu aldar og átti að standa í sex mánuði. Hann stendur enn, tæpum fjörutíu árum síðar. „Ég vona að ég lifi nógu lengi til að sjá hann fara,“ segir Jake sem fæddist árið áður en bygging múrsins hófst. Hann rennir augunum upp eftir margra metra háum steinveggnum og á gaddavírinn sem komið hefur verið fyrir ofan á honum. „Það er sagt að þetta sé til að vernda íbúana. En múrar byggja ekki brýr milli fólks,“ segir hann ábúðarfullur. „Svo mikið er víst.“

Líkt og margir aðrir íbúar Norður-Írlands finnst Jake mikil einföldun og hreinlega rangt að tala um að Vandræðin svokölluðu (The Troubles), sem stóðu í þrjátíu ár og kostuðu á fjórða þúsund manns lífið, hafi verið milli mótmælenda og kaþólikka. „Við trúum öll á sama guð, þetta snerist um pólitík en aldrei um trúarbrögð,“ segir hann. Átökin voru milli þeirra sem vildu að Norður-Írland tilheyrði áfram Stóra-Bretlandi og þeirra sem vildu sameinað Írland. Kaþólikkar voru flestir þjóðernissinnar en mótmælendur drottningarhollir, þ.e. sambandssinnar. Sögulegar ástæður voru svo fyrir því að þessir hópar bjuggu oft á tíðum hvor í sínum borgarhlutanum.

Við Shankill-götu árið 1970 er Vandræðin voru hafin fyrir alvöru. …
Við Shankill-götu árið 1970 er Vandræðin voru hafin fyrir alvöru. Sambandssinnar höfðu yfirráð í hverfinu og Írski lýðveldisherinn, IRA, gerði þar mannskæða sprengjuárás árið 1993. Af Wikipedia

Sú skipting jókst enn frekar á ófriðartímanum. Því má svo ekki gleyma að átökin voru einnig á milli hópa innan hverfanna. Ekkert var annaðhvort svart eða hvítt í þessum efnum frekar en í öðrum styrjöldum nútímans.

Reiðin kraumaði

Þegar Jake fæddist árið 1968 voru Vandræðin að hefjast. Á svæðum sem voru á mörkum hverfa andstæðra fylkinga brutust ítrekað út átök og augljóst var að reiði kraumaði undir niðri. Rætur ólgunnar lágu m.a. í því að sambandssinnar höfðu áratugum saman haft meirihluta í norðurírska þinginu og töglin og hagldirnar í allri stjórnun landsins. Þeir gerðu tilraunir til að leysa pólitískar illdeilur og stinga á samfélagsmeinum, s.s. mismunum gegn kaþólikkum sem var útbreitt vandamál, en fóru sér of hægt að mati þjóðernissinna og of hratt að mati sambandssinna.

Mismununin var að hluta til stjórnarskrárbundin. Kosningaréttur var á þessum árum bundinn við stöðu og eignir fólks. Þá var kjördæmaskipan kaþólikkum í óhag og það reyndist þeim erfitt og jafnvel ómögulegt að fá stöður hjá hinu opinbera.

Á sjöunda áratugnum spruttu víða um heim upp hreyfingar sem kröfðust bættra mannréttinda. Boðskapur þeirra fór ekki framhjá kaþólikkum á Norður-Írlandi, sem þráðu jafnrétti.

Margar ótrúlegar fréttamyndir eru til frá borgarastríðinu í Belfast. Hér …
Margar ótrúlegar fréttamyndir eru til frá borgarastríðinu í Belfast. Hér gætir skæruliði fólks á gangi í einu hverfi borgarinnar. Af Wikipedia

Svo fljótt kviknaði ófriðarbálið árið 1969 að breski herinn var nokkrum mánuðum síðar kvaddur á vettvang til að stilla til friðar. En allt kom fyrir ekki. Ólgan magnaðist og árið 1972 var norðurírska þingið leyst upp og Bretar tóku stjórn landsins að fullu í sínar hendur.

Köstuðu steinum yfir múrinn

Jake ólst upp í hverfi þar sem flestir íbúanna voru mótmælendur. Hann rámar í nokkuð friðsæla tíma, þar sem hann átti vini handan múrsins, en svo kom að því að reiðin smitaði út frá sér og smaug inn í alla þætti samfélagsins. Þar með talin samskipti barnanna. „Ég hélt um tíma að allir væru vondir hinum megin,“ rifjar hann upp. „Ég lék mér í sótsvörtum flökum bíla sem sprengdir höfðu verið í loft upp. Við köstuðum steinum yfir múrinn. Ég sá vini mína setta í fangelsi og ég fylgdi sumum þeirra til grafar.“

Börnin fengu ólíkt uppeldi eftir því í hvaða hverfi þau ólust upp. Í skólum kaþólikka var áhersla lögð á írska menningu. Í skólum mótmælenda var börnunum innrætt bresk menning. Allt jók þetta á óeiningu í landinu.

Jake segist hafa verið heppinn. Hann hafi tekið þá ákvörðun að ganga ekki til liðs við hópana sem stjórnuðu öllu og voru virkir þátttakendur í átökunum. „Það var eiginlega ætlast til þess, að beggja vegna múrsins myndi ungt fólk taka þátt í þessu.“

Hann ólst upp við óöldina en varð síðar vitni að því er friðurinn færðist yfir. Fyrir það er hann þakklátur.

Mörg hús í hverfum mótmælenda eru skreytt breska fánanum.
Mörg hús í hverfum mótmælenda eru skreytt breska fánanum. mbl.is/Sunna

Við og þeir

Billy er á sjötugsaldri. Hann man sannarlega tímana tvenna í Belfast. Er hann var að alast upp voru mörg hverfi borgarinnar blönduð, þar bjuggu bæði mótmælendur og kaþólikkar þótt oft gengju börnin í sinn skólann hvor. Áður en Vandræðin hófust var því ákveðinn aðskilnaður þegar til staðar og hafði svo verið áratugum saman. Litið var niður á kaþólska; þeir voru annars flokks þegnar. En átök og ofbeldi voru langt í frá hluti af daglegu lífi borgarbúa.

Það átti eftir að breytast á ógnarhraða.

„Við“ og „þeir“ urðu viðtekið orðaval. Hverfin urðu einsleitari, mótmælendur af verkamannastétt og kaþólikkar gátu ekki lengur lifað saman í sátt og samlyndi. Lög og regla þurrkuðust nánast út. Enginn treysti lögreglunni. Vopnaðir hópar tóku sér vald hennar og ofbeldisverkin voru oft grimmileg. Fólk var skotið í hnéskeljarnar, barið til óbóta, baðað tjöru og velt upp úr fiðri. Sprengjur voru sprengdar. Skotárásir gerðar. Báðar fylkingar báru ábyrgð á voðaverkunum.

Foreldrar Billys ráku krá og eftir að Vandræðin hófust varð hún oft fyrir sprengjuárásum. „En við sluppum alltaf lifandi,“ segir hann.

Sum hverfi Belfast sluppu að mestu við átökin. Reynt var að girða miðbæinn af. Það tókst misjafnlega vel og varð til dæmis Europa-hótelið, sem er í hjarta miðborgarinnar, fyrir 36 sprengjuárásum. Það hlaut í kjölfarið viðurnefnið „mest sprengda hótel Evrópu“.

Víða í Belfast má finna litríkar veggmyndir. Sumar þeirra eru …
Víða í Belfast má finna litríkar veggmyndir. Sumar þeirra eru nokkuð pólitískar. mbl.is/Sunna

En Norður-Írar supu þó allir seyðið af því sem fram fór. Þeir máttu eiga von á því á ferðalögum í öðrum löndum að vera álitnir hryðjuverkamenn, á þeim var leitað af minnsta tilefni. Það sem þótti fráleitt í vestrænum heimi á þessum tíma var daglegt brauð Norður-Íra.

Sprengjuleit á barnum

Minningar Billys um hversdagslífið á þessum árum eru óraunverulegar fyrir þá sem ekki upplifðu þessa tíma. Hann segist fljótt hafa aðlagast aðstæðum og hætt að kippa sér upp við einkennilegar uppákomur. „Þegar maður sat á barnum stormaði hópur lögreglumanna stundum inn og bað okkur að lyfta fótunum frá gólfinu. Þeir lýstu svo með vasaljósum undir borðin og stólana. Þeir voru að leita að sprengjum sem hótað hafði verið að sprengja,“ segir Billy pollrólegur og sýpur á kaffinu. Í dag á hann fyrirtæki sem sérhæfir sig í að kynna ferðalöngum sögu borgarinnar, m.a. þá pólitísku. Í þeim ferðum deilir hann fúslega af eigin reynslu.

34 km langir múrar

Múrarnir, sem kallaðir eru friðarmúrar, eru ekki bundnir við Belfast. Þá má finna víðar í landinu. Þeir eru allt frá því að vera nokkur hundruð metra langir og upp í það að teygja sig fimm kílómetra. Samtals eru þeir nú 48 talsins og um 34 kílómetrar að lengd.

Fyrsti múrinn var reistur árið 1969 á svæði þar sem íbúarnir höfðu þá þegar komið upp tálmum. Þeim fjölgaði svo jafnt og þétt og hélt áfram að fjölga eftir að friðarsamkomulagið, Föstudagssáttmálinn svonefndi, var undirritað árið 1998.

Í dag eru þeir vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem rita skilaboð friðar á þá og minnast hinnar blóðidrifnu sögu Belfast-borgar.

Börnin fóru ekki varhluta af Vandræðunum. Þau ólust upp í …
Börnin fóru ekki varhluta af Vandræðunum. Þau ólust upp í vírgirtum hverfum og var innrætt að óttast nágranna sína handan múranna. Af Wikipedia

Hliðum enn lokað á kvöldin

Des ólst upp í Lower Falls þar sem flestir íbúarnir voru kaþólskir. Á þeim slóðum, aðallega við götuna Falls Road, voru Vandræðin sérstaklega skæð. Við upphaf áttunda áratugarins, er breski herinn var kvaddur á vettvang til að reyna að stilla til friðar, voru hlið sett upp við Falls Road og hverfunum lokað á kvöldin.

Þó að friður ríki nú, tæpum tveimur áratugum eftir að Föstudagssáttmálinn var undirritaður, eru hliðin enn á sínum stað og mörgum kann að koma á óvart að þeim er enn læst á kvöldin. Það þýðir þó ekki að íbúarnir séu innilokaðir á nóttunni en þeir þurfa að fara miklar krókaleiðir til að komast til síns heima.

Ekki þykir enn óhætt að fjarlægja hliðin þótt að því muni koma í náinni framtíð. „Enginn vill þessar lokanir en þær hafa verið lengi. Hvað gerist þegar þær fara?“ segir Des. Hann segir að flestir séu á því að ekki sé hægt að taka hliðin niður í einni hendingu, slíkur gjörningur þurfi að hafa aðdraganda.

Fleira sameinar en sundrar

En er þá raunverulegur friður ekki kominn á? Jú, að því leyti að óeirðir, sprengju- og skotárásir eru úr sögunni og fólk óttast ekki lengur nágranna sína. En ástandinu nú má kannski frekar líkja við langt og árangursríkt vopnahlé. Friðurinn verður ekki innsiglaður að fullu fyrr en múrar og hlið falla.

„Stjórnmálaskoðanir skilja okkur enn að en það er miklu fleira sem sameinar okkur en sundrar,“ segir Des. Hann stendur á götuhorni við Falls Road og minnist átakanna sem hann varð sjálfur vitni að. Nú prýða litríkar myndir steinsteypta veggina við götuna sem var eitt sinn einn helsti vígvöllur Vandræðanna. Þær flytja margar hverjar pólitískan boðskap. „Nú fær fólk frekar útrás fyrir reiði sína í pólitískum veggmyndum en bardögum,“ segir Des.

Bílarnir aka óhindrað í gegnum hlið götunnar enda sólin enn hátt á lofti. Það eru nokkrir tímar í lokun. „Nú er þetta hverfi venjulegt,“ segir Des um æskuslóðirnar en bætir svo við eftir smáhik: „En hvað er venjulegt?“

Íbúasamsetning Norður-Írlands hefur breyst hratt á stuttum tíma. Áður voru mótmælendur í miklum meirihluta. Hlutföllin eru nú mun jafnari. Og þriðji þjóðfélagshópurinn er kominn til sögunnar: Innflytjendur. Hjónaböndum milli mótmælenda og kaþólikka hefur fjölgað á ný. Það þykir vísbending um sættir.

Jake segist nú eiga vini beggja vegna múrsins sem hann ólst upp við. Hann eigi auðvelt með að vingast við fólk og hefur sleppt takinu á reiðinni sem hann fann fyrir sem barn. „Það hefur reynst þrautin þyngri að fá sárin til að gróa,“ viðurkennir hann. „En nú veit ég að það er gott fólk í öllum liðum.“

En hvenær er tímabært að rífa niður múrinn, jafna hann við jörðu?

Kaþólikkar og mótmælendur starfa nú saman hlið við hlið og búa margir hverjir í blönduðum íbúðarhverfum. En margir kjósa þó enn að búa við öryggi múranna. Þeir óttast hvað gæti gerst yrðu þeir rifnir.

Múr í Belfast sem er margra metra hár. Ofan á …
Múr í Belfast sem er margra metra hár. Ofan á honum er gaddavír. Ferðamenn sækja að að veggnum og skrifa á hann skilaboð friðar. mbl.is/Sunna

Rætt um að rífa múrana

Umræða um að fjarlægja múrana í Belfast hófst á opinberum vettvangi árið 2008 og árið 2011 samþykkti borgarstjórn að gera áætlun um niðurrif þeirra. Ári síðar var gerð könnun meðal íbúa og í ljós kom að 68% þeirra töldu enn þörf á múrunum til að koma í veg fyrir átök. Nú er stefnt að því að fjarlægja þá alla fyrir árið 2023, svo lengi sem tilraunaverkefni þar um gefi góða raun.

Jake segist ekki vita hver rétti tíminn sé. Sjálfsagt sé hann ekki til. „Þurfa tvær kynslóðir hafa búið við frið?“ spyr hann en ein hefur þegar vaxið úr grasi eftir að friðarsamkomulagið var undirritað. „Eða eigum við að láta líða þrjátíu ár? Átökin stóðu í þrjátíu ár. Er þá þarft að halda friðinn í þrjá áratugi áður en múrarnir verða felldir?“

Hann segir stjórnmálamennina ekki búa við múrinn og inni í hverfunum þar sem minningar um stríðsátök, ofbeldi og sáran missi eru enn ljóslifandi. „Þeir búa ekki við þetta öryggisteppi sem múrinn er í dag.“

Hvað gerist þegar hann fer er erfitt að segja fyrir um. En margt er á réttri leið þó að enn ríki tortryggni og aðskilnaður milli hópa.

„Það er svo gott að sjá börnin mín alast upp án þess að hafa kynnst Vandræðunum af eigin raun,“ segir Jake og brosir. „Og ég vona að ég lifi nógu lengi til að sjá múrinn fara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert