Segja niðurskurðinn kosta mannslíf

Fólk heldur hér á lofti spjöldum við upphaf ráðstefnu um …
Fólk heldur hér á lofti spjöldum við upphaf ráðstefnu um HIV sem nú er haldin í París. Um 6.000 vísindamenn taka þátt í ráðstefnunni og hafa margir áhyggur af minnkandi fjárframlögum til málaflokksins. AFP

Harður niðurskurður í fjárframlögum bandarískra stjórnvalda til rannsókna og meðhöndlunar við AIDS mun kosta mannslíf. Forsvarsmenn í baráttunni gegn HIV hvöttu í dag Bandaríkjaþing til að verða ekki við niðurskurðarkröfu Donald Trumps Bandaríkjaforseta í þessum málaflokki.

„Við komum hér saman í dag á sama tíma og einn stærsti styrktaraðili baráttunnar gegn HIV hefur hótað að draga verulega úr fjárframlögum sínum til rannsókna og meðhöndlunar á sjúkdóminum,“ sagði Linda-Gail Bekker, forseti alþjóða AIDS-samtakanna á ráðstefnu um HIV sem nú fer fram í París.

Verði af svo harkalegum niðurskurði segir hún blasa við hörmungar sem heimurinn megi ekki við.

Rúmlega 6.000 vísindamenn víðsvegar að úr heiminum taka nú þátt í ráðstefnunni og segir AFP-fréttastofan ljóst að margir hafi áhyggjur af minnkandi fjárframlögum til málaflokksins.

Hafa fjárframlög ríkistjórna heims ekki verið lægri frá því 2010, samkvæmt upplýsingum frá Kaiser Family Foundation stofnuninni í Kaliforníu.

Bandarísk stjórnvöld hafa árum saman verið stærsti styrktaraðilinn í baráttunni gegn HIV-sýkingu og hafa tæp 70% fjárframlaga allra ríkisstjórna til málaflokksins komið frá Bandaríkjunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert