Selja froska til að bjarga þeim

Agalychnis spurrelli er ein þeirra tegunda sem Jambatu-miðstöðin hefur freistað …
Agalychnis spurrelli er ein þeirra tegunda sem Jambatu-miðstöðin hefur freistað þess að rækta. AFP

Veiðiþjófar í Ekvador hafa löngum verið meðvitaðir um þau fjárhagslegu verðmæti sem liggja í fágætum froskdýrum landsins. Nú eru þeir hins vegar komnir í samkeppni við fyrirtæki sem láta sér annt um umhverfið og selja froskana til að bjarga þeim frá svarta markaðnum og útrýmingu.

Í San Rafael, rétt fyrir utan höfuðborgina Quito, elur rannsóknafyrirtækið Wikiri 12 tegundir af froskum. Sumar er aðeins að finna í Ekvador á meðan aðrar eru í útrýmingarhættu annars staðar í heiminum.

Eftir að hafa komist á legg í hundruðum þar til gerðra glerbúra eru froskarnir seldir til Bandaríkjanna, Kanada, Japan og nokkurra Evrópulanda fyrir allt að 60 þúsund krónur.

Verðið „gefur hugmynd um það hversu ábótasamur veiðiþjófnaður getur verið,“ segir Lola Guarderas, framkvæmdastjóri froskabús Wikiri.

Máli sínu til stuðnings bendir hún á svokallaðan glerfrosk en gegnsæ húð hans gerir manni kleift að fylgjast með rauðu hjarta hans slá er hann fikrar sig meðfram glervegg búrsins.

Epipedobates tricolor í atlotum.
Epipedobates tricolor í atlotum. AFP

Á lóð fyrirtækisins, sem telur 5.000 fermetra, er að finna stóra garða sem liggja meðfram á. Þar eru froskarnir ræktaðir á rannsóknarstofum, til að hafa ekki áhrif á vistkerfið á svæðinu.

Þeir eru í kjölfarið seldir í siðrænum og löglegum viðskiptum, sem eru fullkomlega frábrugðin aðferðum veiðiþjófa.

„Þetta er afar ólíkt ólöglegum viðskiptum með tegundir; aðferðum þeirra sem vaða beint inn á svæði til að fanga öll dýrin og flytja þau síðan út, öllum dýrunum í skóginum til skaða,“ segir Guarderas.

Merkur áfangi

Auk þess að stýra froskabúinu starfar Guarderas með Jambatu-miðstöðinni, sem rannsakar og varðveitir froskdýr og hefur aðstöðu hjá Wikiri.

Líffræðilegur fjölbreytileiki er óvíða jafn mikill og í Ekvador. Þar eiga yfir 600 tegundir af froskum heimkynni og helming þeirra er aðeins að finna í Ekvador.

Samkvæmt umhverfisráðuneyti landsins eru 186 tegundir í útrýmingarhættu.

Yfirvöld hafa bannað veiðar og sölu allra villtra dýra í landinu en það hefur ekki stöðvað ólögleg viðskipti með villt dýr úr Amazon-frumskóginum, sem spannar Brasilíu, Perú, Kólumbíu, Bólivíu, Ekvador, Venesúela, Guyana og Súrinam.

Talið var að Atelopues ignescens hefði dáið út fyrir um …
Talið var að Atelopues ignescens hefði dáið út fyrir um þremur áratugum þar til nokkur dýr fundust í fyrra. Nú hefur tekist að fá par til að fjölga sér. AFP

Talið er að veiðiþjófar hafi haft um 1,3 milljarð Bandaríkjadala upp úr krafsinu á árunum 2005 til 2014.

Nýlega tilkynnti Jambatu-miðstöðin um merkan áfanga; tekist hafði að fá Atelopus ignescens til að fjölga sér. Hið svarta froskdýr var útbreitt við Andes-fjallgarðinn í Ekvador en var talið hafa dáið út fyrir um þremur áratugum.

Allt þar til nokkur dýr fundust á síðasta ári.

Fjörtíu og þrjú voru flutt í Jambatu-miðstöðina, sem tókst eftir nokkrar tilraunir að fá eitt par til að geta af sér um 500 halakörtur.

Smyglið umfangsmikið

Jambatu vinnur með um 40 tegundir sem finnast í Ekvador og nokkrum öðrum ríkjum Suður-Ameríku.

Um tugur er fluttur út, m.a. Agalychnis spurrelli, Cruziohyla calcarifer og Hyalinobatrachium aureoguttatum.

Gastrotheca orophylax.
Gastrotheca orophylax. AFP

Miðstöðin selur um 500 froska á ári en heildarfjöldinn sem seldur er frá ríkjum Rómönsku Ameríku telur um 7.000 froskdýr.

Vonin er sú að með því að veita sölunni í löglegan faraveg takist að grafa undan veiðiþjófnaði og smygli. Luis Coloma, framkvæmdastjóri Jambatu-miðstöðvarinnar, segir froskasmygl umfangsmikið á heimsvísu.

Veiðiþjófnaður er hins vegar aðeins ein hættan sem steðjar að froskunum en mörgum tegundum stendur bráð hætta af ágangi manna, mengun og loftslagsbreytingum.

Samkvæmt umhverfisráðuneyti Ekvador hafa 18 tegundir þegar horfið og þannig dregið úr líffræðilegum fjölbreytileika landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert