Slaka á reglum um blóðgjafir samkynheigðra

Gamla reglugerðin kvað á um að samkynhneigðir karlar mættu ekki …
Gamla reglugerðin kvað á um að samkynhneigðir karlar mættu ekki hafa stundað kynlíf sl. ár ef þeir ætluðu að gefa blóð. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bresk stjórnvöld hafa samþykkt að slaka á reglum um blóðgjafir samkynhneigðra karla. Til þessa hafa samkynhneigðir karlar aðeins mátt gefa blóð ef þeir hafa ekki stundað kynlíf sl. 12 mánuði. Nýju reglurnar stytta þennan tíma niður í þrjá mánuði.

Fjallað er um málið í Pink News, fréttamiðli samkynhneigðra.

Þegar reglurnar voru settar var þeim ætlað að hindra að blóð með HIV-smiti yrði notað í blóðgjafir. Reglurnar hafa hins vegar mætt sívaxandi gagnrýni undanfarin ár, þar sem þær hafa ekki tekið tillit til nýrra skimunaraðferða.

Breska stjórnin segir reglugerðarbreytinguna til komna vegna meðmæla nefndar um blóð-, vefja- og líffæragjafir (SaBTO) og að hún byggist á nýjustu þekkingu læknavísinda. Fleiri eigi því að geta gefið blóð án þess að það hafi áhrif á öryggi blóðbirgða.

Nýju reglurnar munu taka gildi snemma á næsta ári.

Allt þar til í fyrra var þeim samkynhneigðu mönnum sem voru kynferðislega virkir bannað að gefa blóð fyrir lífstíð í sumum héruðum Bretlands.

Samtök samkynhneigðra í Bretlandi fagna nýju reglugerðinni og segja hana skref fram á við og að hún byggist á kerfi sem líti til áhættuþátta í stað þess að taka til allra samkynhneigðra karla.

Íslensk lög heimila ekki blóðgjafir samkynhneigðra karla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert