Trump ætlar ekki að náða sjálfan sig

Það virðist enn vera álitamál hvort forseti geti náðað sjálfan …
Það virðist enn vera álitamál hvort forseti geti náðað sjálfan sig. AFP

Lögmaður Donalds Trumps segir að lögfræðiteymi forsetans sé ekki að leita leiða til þess að hann geti náðað sjálfan sig. Þessu er greint frá á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC

„Ég veit ekki hvaðan þetta kemur, það er ekkert að náða,“ sagði Jay Sekulow. „Ég hef ekki rannsakað málið vegna þess að þetta er ekki mál í sjálfu sér.“

Hann bætti við að heimild forseta til þess að náð sjálfan sig væri enn álitamál en Trump skrifaði á Twitter-reikningi sínum í gær að hann hefði „fullt vald“ til að veita náðun. 

Fyrr í vikunni greindi The Washington Post frá því að Trump hefði spurst fyrir um möguleikann á því að náða sjálfan sig, fjölskyldu sína eða aðstoðarmenn í tengslum við rannsókn á íhlutun rússneskra yfirvalda í forsetakosningunum á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert