Kushner neitar samvinnu við Rússa

Jared Kushner, sem er sérstakur ráðgjafi Trumps, ræddi við fjölmiðla …
Jared Kushner, sem er sérstakur ráðgjafi Trumps, ræddi við fjölmiðla að loknum fundi sínum með nefnd öldungadeildar. AFP

Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, varði gjörðir sínar í forsetaframboði Trumps á síðasta ári. Kushner gaf í dag vitnisburð fyrir öldungadeildaþingnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakar meint afskipti rússneskra ráðamanna af forsetakosningunum.

Kushner, sem er giftur Ivönku Trump og er sérstakur ráðgjafi föður hennar, neitaði því að nokkur samvinna hefði verið við rússnesk stjórnvöld í kosningabaráttunni. „Allar mínar gjörðir voru við hæfi og áttu sér stað í hefðbundnu kosningabaráttuferli,“ sagði Kushner.

Að lokinni yfirheyrslunni hjá þingnefndinni ræddi Kushner við fréttamenn og sagðist hafa gætt fulls gagnsæis og að hann hefði veitt allar þær upplýsingar sem óskað var eftir.

„Ég skal vera skýr með þetta – ég átti ekki í samstarfi við Rússa, né heldur veit ég um nokkurn annan sem vann fyrir framboðið sem gerði það. Ég átti enga óviðeigandi fundi,“ hefur BBC eftir honum.

Kushner mun koma fyrir sambærilega þingnefnd fulltrúadeildar þingsins á morgun.

Í yfirlýsingu sem Kushner sendi frá sér fyrir fundinn sagði hann varla nokkra hafa haft samskipti við Rússa, „mögulega fjóra“.

Þá sagði hann um fundinn með rússneska lögfræðingnum Nataliu Veselnitskaya í júní á síðasta ári, að hann hefði komið seint og fundurinn hefði verið að litlu gagni. Bandarískir fjölmiðlar hafa áður greint frá því að Veselnitskaya hafi heitið því að koma með upplýsingar sem kæmu sér illa fyrir Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert