Þrýstingur á ríkisstjórnina vegna leka

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AFP

Sænska ríkisstjórnin undir forystu Stef­an Löf­ven forsætisráðherra hefur verið undir miklum þrýstingi undanfarið vegna leka á viðkvæmum upplýsingum, þar á meðal persónuupplýsingum um ráðamenn þjóðarinnar. Stofnunin Transportstyrelsen sem hýsti umræddar upplýsingar lét þær í té erlendum einstaklingum sem unnu í gagngrunni fyrirtækisins.

Forstjóri stofnunarinnar, Maria Ågren, var látin taka pokann sinn í janúar og í síðasta mánuði var hún sektuð um 70 þúsund sænskar krónur fyrir brot á reglum um meðferð upplýsinga, miðillinn Expressen greinir frá. 

Á meðal viðkvæmra upplýsinga eru heimilisföng starfsmanna sænsku öryggislögreglunnar, lögreglumanna og hermanna. 

Forsætisráðherrann hefur boðað til blaðamannafundar kl. 15 að sænskum tíma í dag vegna málsins. Málið er eldfimt og er talið líklegt að einhverjir stjórnendur og starfsmenn stjórnkerfisins sem og ráðamenn þurfi að segja af sér vegna málsins. 

Blaðið Dagens nyheter hefur kafað ofan í málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert