Tíminn rann út fyrir Charlie Gard

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Foreldrar hins ellefu mánaða gamla Charlie Gard sem þjáist af banvænum hrörnunarsjúkdómi hafa gefist upp á því að ferðast til Bandaríkjanna vegna tilraunarmeðferðar.

BBC greinir frá því að foreldrar drengsins hafi gefist upp á meðferðinni eftir að bandarískur læknir sagði að það væri um seinan. Lögfræðingur þeirra Chris Gard og Connie Yates sagði að „tíminn hefði runnið út“.

Leyfa syni sínum að deyja

Foreldrar Charlies mættu fyrir yfirrétt í Bretlandi í dag, þar sem til stóð að leggja fram vitnisburð frá bandarískum taugalækni sem heimsótti Charlie á Great Ormond Street-spítalann á dögunum. Niðurstaða læknisins var ljós á föstudag, en hann sagði að engin von væri fyrir drenginn. Ákváðu foreldrarnir því að draga til baka kröfur sínar, og leyfa syni sínum að deyja.

Sky News fylgdist með frá dómsalnum í beinni útsendingu. Þar sagði lögmaður foreldranna að í ljós hefði komið að meðferð myndi engum árangri skila. 

Það erfiðasta sem foreldrarnir hafa gert

For­eldr­arn­ir hafa bar­ist fyr­ir því að dreng­ur­inn fái að lifa, en vegna sjúk­dóms hans get­ur hann ekki opnað aug­un, borðað eða hreyft sig svo neinu nemi sjálf­ur. 

Lækn­ar á spít­al­an­um hafa farið fram á að taka önd­un­ar­vél sem held­ur drengn­um á lífi úr sam­bandi, og hafa dóm­ar­ar á öll­um dóm­stig­um í Bretlandi og fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu verið sam­mála því.

„Þetta er það erfiðasta sem við höfum gert. Eftir nýjustu niðurstöður höfum við ákveðið að leyfa syni okkar að deyja,“ sagði Connie Yates, móðir drengsins, fyrir dómi í dag. Þá gagnrýndi hún ferlið síðustu mánuði og sagði miklum tíma hafa verið sóað. Ef hann hefði farið fyrr í meðferðina hefði hann átt möguleika.

„Mamma og pabbi elska þig svo mikið“

„Við vitum í hjörtum okkar að við gerðum okkar besta fyrir Charlie og við vonum að hann sé stoltur af okkur,“ sagði Yates. „Mamma og pabbi elska þig svo mikið, Charlie, við höfum alltaf gert það og munum alltaf gera það.“

Charlie fædd­ist 4. ág­úst í fyrra. Hann er með erfðasjúk­dóm sem veld­ur óaft­ur­kræf­um heila­skemmd­um og því að vöðvar hans rýrna hratt. For­eldr­arn­ir vildu fá að flytja hann til Banda­ríkj­anna til að gang­ast und­ir til­raunameðferð við sjúk­dómn­um. Öndunarvél hans verður nú tekin úr sambandi.

Foreldrar hins ellefu mánaða gamla Charlie Gard sem þjáist af …
Foreldrar hins ellefu mánaða gamla Charlie Gard sem þjáist af banvænum hrörnunarsjúkdómi hafa gefist upp á því að ferðast til Bandaríkjanna vegna tilraunarmeðferðar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert