Sessions ætlar ekki að segja af sér

Donald Trump Bandaríkjaforseti og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions á góðri stundu …
Donald Trump Bandaríkjaforseti og dómsmálaráðherrann Jeff Sessions á góðri stundu áður en köldu tók að anda á milli þeirra. AFP

Jeff Sessions ætlar ekki að segja af sér embætti dómsmálaráðherra, þrátt fyrir opinbera gagnrýni Donald Trump Bandaríkjaforseta á ráðherrann. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir nánum bandamönnum Sessions, sem segja herferð Trump vera til þess gerða að þrýsta á Sessions að segja af sér svo forsetinn þurfi ekki að reka hann.

Sessions hafi hins vegar alls ekki í hyggju að segja af sér.

Trump nýtti sér samskiptavefinn Twitter fyrr í dag til að lýsa þeirri skoðun sinni að Sessions hefði tekið„mjög veika afstöðu“ gegn meintum glæpum Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump.

Trump reiður Sessions og Sessions sár forsetanum

Reuters segir Trump vera reiðan Sessions fyrir að segja sig frá því að hafa yfirumsjón með alríkisrannsókn á mögulegum starfsmanni framboðs Trumps og rússneskra ráðamanna. Stjórnvöld í Kreml hafa alfarið neitað slíkum samskiptum og það hefur Bandaríkjaforseti einnig gert. Eftir að hann sagði sig frá málinu hefur Sessions enga umsjón með rannsókn Robert Muellers, sérstaks rannsakanda í málinu, sem m.a. hefur beint kastljósinu að aðstoðarmönnum forsetans og tengdasyni, Jared Kushner.

Tveir nánir bandamenn Sessions segja hann verulega sáran í garð forsetans fyrir gagnrýnina en að hann sé staðráðinn í að láta hana ekki hafa áhrif á sig. Árásir forsetans á Sessions hafa líka vakið hneykslan margra í Washington, en Trump hefur með þeim enn á ný brotið hefðbundnar stjórnskipunarsiðareglur – ekki hvað síst þá að forseti láti aldrei opinberlega í ljós óánægju sína með ráðherra í eigin stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert