Fannst látin á lestarteinum

Taiyah Pebbles.
Taiyah Pebbles. Af Facebook

Sextán ára gömul bresk stúlka fannst í gær látin á lestarteinum í Kent á Bretlandi. Breska lögreglan segir dauða hennar vera óútskýrðan, en hún hafi þó líklega látist úr raflosti.

Taiyah Pebbles var úrskurðuð látin á vettvangi eftir að hún fannst um klukkan sjö í gærmorgun á lestarteinunum. 

„Hugur okkar er hjá fjölskyldu og vinum þessarar ungu stúlku sem þurfa nú að horfast í augu við þessar hræðilegu fréttir,“ hefur Sky fréttastofan eftir Paul Langley, sem fer fyrir rannsókn málsins.

Segir hann það nú forgangsatriði hjá lögreglu að rannsaka hvers vegna Pebbles var á teinunum. Fjölskylda hennar skilji ekki hvernig slysið atvikaðist og bíði örvæntingafull svara.

„Það sem við vitum á þessum tímapunkti er að hún var með hópi vina nálægt lestarstöðinni skömmu fyrir klukkan 11 kvöldið áður,“ segir Langley.

Einhvern tímann á milli þess tíma og klukkan 7 morguninn eftir hafi hún látist. Óskar lögreglan nú eftir því að ná tali af fólki sem var í grennd við stöðina á þeim tíma.

Krufning verður framkvæmd á líki stúlkunnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert