Send í heimavistarskóla og lifa af betli

Drengir ganga um götur Guediawaye, í nágrenni Dakar, með betlskálar. …
Drengir ganga um götur Guediawaye, í nágrenni Dakar, með betlskálar. Ef þeir koma í skólann án matar eða aura bíða þeirra barsmíðar. AFP

Sólin er varla komin upp þegar nokkur af 50.000 betlarabörnum Senegal þjóta út á götur borgarinnar Dakar með betlaraskál í hönd í von um að geta sníkt poka af sykri eða nokkra aura til að afhenda kennara sínum.

„Tabiles“ eru börn sem send eru af foreldrum sínum í heimavistarskóla, en sem þurfa svo að draga fram lífið með betli. AFP-fréttastofan segir sum barnanna ekki eldri en fjögurra ára gömul og að þrátt fyrir fögur fyrirheit stjórnvalda í Dakar um herferð gegn heimavistarskólunum, þá sé fjöldi betlarabarnanna mikill.

Mouhamed Lo, sjúkraliði í Yakaaru Guneye-barnamiðstöðinni, kemur auga á þrjú börn með betlaraskál í hönd. „Þau eru búin að vera hér síðan sex í morgun,“ segir hann og lýsir daglegu lífi barnanna.

„Ríkið gerir ekkert fyrir þau. Ég er búin að vera að vinna hérna í 15 ár og það hefur ekkert breyst á þeim tíma,“ segir Lo.

Þrisvar í viku fer Lo út á göturnar með félagsfræðingi og ræðir við drengjahópana og varar þá við hættunum sem bíða þeirra á götunum.

30.000 betlarabörn í Dakar

Það er ekki lítið verk að ætla sér að ræða við öll börnin, því 30.000 börn lifa af betli í Dakar og það er algengt að þau sæti einhverskonar misþyrmingu.

Mannréttindasamtökin  Human Rights Watch hafa á síðasta ári skráð tvö tilfelli þar sem börn hafa látist vegna misþyrminga kennara, fimm kynferðisbrotamál og 28 tilfelli þar sem börn hafa verið barin og fangelsuð.

Flestar þeirra fjölskyldna sem senda börn sín í íslamskan heimavistarskóla, svonefndan „daara“ til að læra kenningar kóransins, telja sig vera að gera þeim gott og þetta telst virt val, sérstaklega hjá fjölskyldum til sveita.

Börn niður í fjögurra ára aldur eru send í heimavistarskóla …
Börn niður í fjögurra ára aldur eru send í heimavistarskóla í Dakar til náms í íslömskum fræðum. Vistin í skólunum er þó oft ekki góð og lærdómurinn lítill. Þess í stað eyða börnin löngum tíma í betl. AFP

Hótað barsmíðum komi þau ekki með mat eða pening

Raunveruleikin er hins vegar sá að fæst barnanna fá mikla kennslu í fræðum kóransins eða öðrum fræðum sem gætu gagnast þeim í lífinu. Þess í stað eyða þau löngum stundum í betl, þar sem þeim er hótað barsmíðum ef þau koma ekki til baka með nægan mat eða peninga.

Stjórn landsins hóf herferð gegn heimavistarskólunum síðasta sumar og tók  þá að nýta barnamiðstöðvar á borð við að Yakaaru Guneye  til að kanna hvort sjúkdómar eða vannæring væru algeng meðal nemenda.

Starfsfólkið hefur átt erfitt með að taka á móti öllum þeim fjölda barna sem þangað komu í kjölfarið.

„Þetta var virkilega erfitt fyrir okkur. Við fórum langt yfir getu okkar með því að taka á móti rúmlega 150 börnum,“ segir Seydina sem hefur umsjón með menntun barnanna.

Stjórnvöld brugðust hins vegar ekki rétt við að hennar mati, með því að koma börnunum af götunni án þess að auka fjárframlög til miðstöðvanna.

Mannréttindasamtök segjast líka vita til þess að rúmlega 1.000 börn, sem stjórnvöld skilgreindu sem betlara, hafi á endanum endað í sama heimavistarskóla og áður og með sömu kennara.

Þau telja að skortur á refsiaðgerðum gegn skólunum og kennurunum hafi það í för með sér að ekkert breytist.

Herferð yfirvalda gegn heimavistarskólunum skilaði litlum árangri og mörg barnanna …
Herferð yfirvalda gegn heimavistarskólunum skilaði litlum árangri og mörg barnanna enduðu aftur í sama skóla og með sömu kennara. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert