Játar að hafa slegið drenginn flötum lófa

Götumynd frá miðborg Óslóar. Nemandi við Holmlia-skólann í austurhluta borgarinnar …
Götumynd frá miðborg Óslóar. Nemandi við Holmlia-skólann í austurhluta borgarinnar var fluttur með hraði á Ríkissjúkrahúsið eftir að hafa farið í hjartastopp skammt frá skólanum.

Mánudaginn 12. júní var Mohammed Altai, 16 ára gamall nemandi við Holmlia-skólann í austurhluta Óslóar, fluttur með hraði á Ríkissjúkrahúsið í borginni eftir að hafa farið í hjartastopp skammt frá skólanum. Þetta gerðist eftir að hann lenti í átökum við 18 ára gamlan mann sem sló hann niður, en aðrir nemendur við skólann sáu atvikið að mestu leyti frá skólalóðinni og gátu borið vitni.

Fyrir liggur í málinu að Altai og árásarmaðurinn þekktust og hefur sá síðarnefndi gefið þá skýringu að hann hafi heimsótt fórnarlambið í skólann með það fyrir augum að ræða við það. Altai komst aldrei til meðvitundar eftir árásina og fékk lögregla því aldrei að heyra hans hlið á málinu, að sögn Andreas Strand, lögfræðings lögreglunnar í Ósló, í samtali við norska dagblaðið VG.

Telur ekki um orsakasamhengi að ræða

Øyvind Bratlien er verjandi mannsins sem í fyrstu var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir stórfellda líkamsárás en á nú yfir höfði sér eina af þremur mögulegum manndrápsákærum í norskum rétti þar sem ásetningsstigin eru þrjú.

„Skjólstæðingi mínum féllu fréttirnar [af andlátinu] þungt, hann segist ekki hafa slegið þolandann með öðru en flötum lófa og telur ekki samhengi milli gjörða sinna og þess hvernig fór,“ segir Bratlien í samtali við VG og kveður skjólstæðing sinn ekki játa refsiábyrgð í málinu.

Rannsókn lögreglu beinist nú fyrst og fremst að því að draga upp heildarmynd af atburðinum og ekki síst forsögu málsins. Krufning á líki Altai fór fram í gær en að sögn Andreas Strand kýs lögregla að gefa ekki upp dánarorsökina fyrr en rætt hefur verið við aðstandendur hins látna og niðurstaðan kynnt hinum grunaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert