Samþykkja refsiaðgerðir gegn Rússum

Mikill meirihluti öldungadeildarþingmanna samþykkti refsiaðgerðirnar.
Mikill meirihluti öldungadeildarþingmanna samþykkti refsiaðgerðirnar. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti nú í kvöld refsiaðgerðir gegn Rússlandi, Íran og Norður-Kóreu þrátt fyrir andstöðu ráðamanna í Hvíta húsinu við frumvarpinu.

Frumvarpið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, en 98 sögðu já og tveir nei.

Fulltrúadeild þingsins samþykkti frumvarpið fyrr í vikunni, einnig með miklum meirihluta atkvæða, og verður það nú sent Donald Trump Bandaríkjaforseta til undirritunar.

BBC segir Trump, sem viljað hefur bæta samskipti Bandaríkjanna við Rússland, geta beitt neitunarvaldi þó að frumvarpið njóti yfirgnæfandi meirihluta þingsins.

Þingheimur getur þó virt synjun forsetans að vettugi, fái slík tillaga samþykki tveggja þriðju hluta þingsins.

Refsiaðgerðunum er að hluta ætlað að refsa Rússum fyrir innlimun Krímskaga árið 2014, grunur um afskipti rússneskra ráðamanna af forsetakosningunum í Bandaríkjunum á síðasta ári hefur þó einnig haft áhrif.

Að sögn BBC þá hafa ráðamenn í Hvíta húsinu sérstaklega áhyggjur af þeim hluta frumvarpsins sem takmarkar vald forsetans til að afnema viðskiptabannið, en frumvarpið kveður á um að það verði ekki gert nema í samráði við þingið.

Fyrr í þessari viku sagði Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar þingsins, að frumvarpið „herti takið á hættulegustu andstæðingum [Bandaríkjanna] til að tryggja öryggi Bandaríkjamanna“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert