„Hún vildi ekki hætta að hlæja að mér“

Morðið átti sér stað um borð í Emerald Princess.
Morðið átti sér stað um borð í Emerald Princess. Wikipedia/Bahnfrend

Kenneth nokkur Manzanares hefur verið ákærður fyrir að myrða konuna sína um borð í skemmtiferðaskipi en að sögn lögreglu reiddist maðurinn þegar konan „vildi ekki hætta að hlæja“ að honum.

Hin 39 Kristy Manzanares frá Utah fannst látin í herbergi hjónanna. Var hún með sýnilega og mikla höfuðáverka.

Eiginmaður hennar var handtekinn eftir að öryggisverðir fundu blóð á höndum hans og fatnaði.

Vitni sem fór inn á herbergi hjónanna á undan öryggisvörðum sagðist hafa séð Manzanares draga lík eiginkonu sinnar út á svalir. Vitnið greip í ökkla konunnar og dró hana aftur inn.

Þegar það spurði Manzanares hvað gerðist svaraði hann: „Hún vildi ekki hætta að hlæja að mér.“

Atvikið átti sér stað á þriðjudagskvöld, um borð í Emerald Princess skemmtiferðaskipinu, sem er í eigu Princess Cruises. Það lagði úr höfn í Seattle á sunnudag í vikulanga ferð.

Samkvæmt frétt BBC voru aðrir meðlimir Manzanares-fjölskyldunnar um borð en yfirvöld hafa ekki gefið nánari upplýsingar um þá. Vitað er að Kristy var móðir.

Málið er til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni, þar sem morðið var framið á bandarísku hafsvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert