Kallar Priebus „vænissjúkan geðklofasjúkling“

Anthony Scaramucci lét hörð orð falla um háttsetta samstarfsmenn sína …
Anthony Scaramucci lét hörð orð falla um háttsetta samstarfsmenn sína í Hvíta húsinu. AFP

Anthony Scaramucci, talsmaður Hvíta hússins sem nýverið tók við embætti af Sean Spicer, hefur látið hörð orð falla í garð Reince Priebus, skrifstofustjóra Hvíta hússins. Scaramucci var óvæginn í símtali sem hann átti við blaðamann tímaritsins New Yorker þar sem hann sagði Priebus vera „vænisjúkan geðklofasjúkling“

Var hann í uppnámi vegna þess að blaðamaðurinn, Ryan Lizza, hafði skrifað um það á Twitter með hverjum Scaramucci hafi átt kvöldverð. Þá gerði Scaramuccio í símtalinu einnig atlögu að Steve Bannon, einum helsta ráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Steve Bannon, einn helsti ráðgjafi Bandaríkjafoseta, Anthony Scaramucci, nýr talsmaður …
Steve Bannon, einn helsti ráðgjafi Bandaríkjafoseta, Anthony Scaramucci, nýr talsmaður Hvíta hússins og Reince Priebus, skrifstofustjóri Hvíta hússins. AFP

Lét Scaramucci falla harkaleg blótsyrði þar sem hann vandaði Priebus og Bannon ekki kveðjurnar.

Í kjölfarið skrifaði Scaramucci færslu á Twitter þar sem hann kveðst sjá eftir þessum „litríku ummælum“ sínum. Hann hefur ekki vísað eðli samtalsins á bug en kveðst hafa „gert þau mistök á treysta blaðamanni,“ og kveðst ætla að passa sig á að það gerist ekki aftur.


Strax í fyrstu viku sinni í starfi í Hvíta húsinu kvaðst Scaramucci ætla að berjast gegn upplýsingaleka úr húsinu og hefur hann gefið það til kynna í viðtölum við fjölmiðla að hann telji skrifstofustjórann vera einn þeirra sem standi að lekunum.

„Ef Reince [Priebus] vill útskýra að hann leki ekki upplýsingum, leyfum honum það,“ sagði Scaramucci í símaviðtali við fréttamann CNN. Donald Trump hefur sagt upplýsingaleka úr Hvíta húsinu varða þjóðaröryggi og að honum verði að linna.

Varasamt að vísa Scaramucci á dyr

Í samtali við BBC nýverið sagði Scaramucci Trump vera forseta sem muni hrista upp í hlutunum en hann hafi hlotið kjör í þeim tilgangi að rífa niður hið hefðbundna kerfi.

Í harðyrtu viðtalinu við blaðamann New Yorker segja fréttaskýrendur BBC Scaramucci hafa dregið skýra línu í átökunum milli sín og andstæðinga sinna innan veggja Hvíta hússins, Priebus og sér í lagi Bannon. Ummælin muni gera ríkisstjórn Trump erfiðara fyrir að starfa með eðlilegum hætti eins og samsetning starfsfólks í Hvíta húsinu er núna.

Varasamt sé þó að vísa Scaramucci á dyr svo skömmu eftir að hann tók við starfi talsmanns Hvíta hússins en það gæti gefið til kynna að forsetinn hafi gert mistök við ráðningu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert