Ryan svekktur og vonsvikinn

Paul Ryan forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, ætlar nú að beina athygli …
Paul Ryan forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, ætlar nú að beina athygli sinni að skattabreytingum. AFP

Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er vonsvikinn og svekktur yfir því að öldungadeild þingsins skuli ekki hafa samþykkt að taka heilbrigðisfrumvarp Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til umræðu.

Ryan er ekki eini þingmaður Repúblikanaflokksins sem hefur lýst yfir óánægju sinni með að frumvarpið skuli ekki hafa komist í gegn, en því er ætlað að afnema núverandi heilbrigðisstefnu, sem komið var á í tíð Baracks Obama Bandaríkjaforseta og gengið hefur undir heitinu obamacare.

Þetta er þriðja tilraun Trumps til að afnema obamacare, sem var eitt af kosningaloforðum forsetans. BBC segir þetta vera áfall fyrir repúblikana sem árum saman hafa reynt að fá heilbrigðisstefnunni breytt.

Ljóst var að frumvarpið yrði ekki tekið til umræðu eftir að öldungadeildarþingmaðurinn John McCain kaus gegn því. Þrír þingmenn repúblikana kusu þar með gegn frumvarpinu og féllu atkvæði 51 gegn 49.

Ryan sagði repúblikana þó ekki eiga að gefa áætlun sína upp á bátinn, en kvaðst engu að síður ætla að beina athygli sinni á næstunni að breytingum á skattkerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert