Sharif segir af sér

Sharif árið 2013.
Sharif árið 2013. AFP

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, hefur sagt af sér eftir að hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu í morgun að hann væri óhæfur til að gegna embættinu. Talsmaður Sharif staðfesti fregnirnar fyrir stundu en sagði hann setja mikinn fyrirvara við dómsmeðferðina.

Gríðarleg öryggisgæsla er í Islamabad og hafa tugþúsundir lögreglu- og hermanna verið sendir út af örkinni vegna ástandsins.

Einn dómaranna í málinu gegn Sharif sagði hann ekki lengur geta sinnt hluverki „heiðarlegs þingmanns“ og þá hvatti innanríkisráðherrann Chaudhry Nisar Ali Khan kollega sinn til að sætta sig við niðurstöðu dómsins.

Dómstóllinn hefur gefið út að ástæða sé til að höfða spillingarmál á hendur Sharif, dóttur hans Maryam og eiginmanni hennar Safdar, og fjármálaráðherranum Ishaq Dar og fleirum.

Ef Sharif hefði setið í embætti næstu 12 mánuðina hefði hann orðið fyrsti forsætisráðherrann í sögu Pakistan til að ljúka heilu kjörtímabili á valdastóli.

Óvíst er hver tekur við af Sharif en bróðir hans Shehbaz hefur verið nefndur sem líklegur kandídat. Stjórnarflokkurinn PML-N mun fá heimild forseta þingsins til að skipa forsætisráðherra, sem mun sitja í embætti þar til kosningar fara fram á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert