Vanhæfur í kjölfar Panama-skjalanna

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, hefur ávallt neitað ásökunum um spillingu.
Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, hefur ávallt neitað ásökunum um spillingu. AFP

Nawaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, hefur verið fundinn vanhæfur til að gegna embætti í framhaldi af rannsókn á meintri spillingu í starfi. Þetta er niðurstaða hæstaréttar Pakistan sem hóf rannsókn á auðæfum fjölskyldu forsætisráðherrans í kjölfar gagnaleka Panama-skjalanna árið 2016. Forsætisráðherrann hefur í kjölfar þessa sagt upp embætti. BBC greinir frá.

Sjálfur hefur Sharif ávallt neitað öllum ásökunum um spillingu. Úrskurðurinn var einróma niðurstaða fimm dómara réttarins sem fóru með málið. Réttarsalurinn var þétt setinn þegar úrskurður var kveðinn upp í dag og var ströng öryggisgæsla í höfuðborginni Islamabad allri þar sem tugþúsundir her- og lögreglumanna stóðu vaktina.

Einn dómaranna, Ejaz Afzal Khan, segir forsætisráðherrann ekki lengur „vera hæfan til að sitja sem heiðarlegur þingmaður,“ hefur fréttastofa Reuters eftir dómaranum.  Innanríkisráðherra landsins, Chaudhry Nisar Ali Khan, er sagður hafa hvatt Sharif til að fallast á niðurstöðuna.

Þá hefur dómstóllinn mælist til þess dómsmál verði höfðað gegn nokkrum einstaklingum, þar á meðal Sharif, dóttur hans Maryam og eiginmanni hennar auk Ishaq Dar, forsætisráðherra landsins, auk annarra vegna spillingar.

Enginn kjörinn forsætisráðherra í Pakistan hefur nokkurn tímann setið í heilt fimm ára kjörtímabil. Sharif, sem gegndi embætti forsætisráðherra í þriðja sinn, var ekki nema ári frá því að verða fyrsti forsætisráðherrann til að sitja heilt kjörtímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert