Sjö starfsmönnum Chumhuriyet sleppt

Skopmyndateiknarinn Musa Kart var meðal þeirra sem var sleppt í …
Skopmyndateiknarinn Musa Kart var meðal þeirra sem var sleppt í morgun. AFP

Sjö starfsmönnum stjórnarandstöðublaðsins Chumhuriyet hefur verið sleppt úr haldi eftir átta mánaða fangelsisdvöl. Dómstóll í Istanbul úrskurðaði um lausn fólksins í gær en þekktustu blaðamenn blaðsins sitja enn bakvið lás og slá.

Chumhuriyet hefur verið meðal fárra radda sem hafa þorað að viðhafa andstöðu gegn Recep Tayyi Erdogan forseta en starfsmenn þess hafa verið ákærðir fyrir að styðja við hryðjuverkastarfsemi.

Stuðningsmenn blaðsins segja ásakanirnar fáránlegar.

Fólkið sem sleppt var í morgun á enn ákærur yfir höfði sér og verður að gefa sig fram við yfirvöld þegar þess er óskað. Það segist vonast til að kollegum sínum verði einnig leyft að fara.

Þeir fjórir sem enn dúsa í steininum eru aðalritstjórinn Murat Sabuncu, framkvæmdastjórinn Akin Atalay, rannsóknarblaðamaðurinn Ahmet Sik og dálkahöfundurinn Kadri Gursel.

Mál þeirra verður næst tekið fyrir 11. september nk. en fólkið á yfir höfði sér allt að 43 ára fangelsi.

Fjórir starfsmenn Cumhuriyet eru enn í haldi.
Fjórir starfsmenn Cumhuriyet eru enn í haldi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert