Umfangsmiklar aðgerðir í Ástralíu

Sydney.
Sydney. Wikipedia/Lobster1

Lögregluyfirvöld í Sydney í Ástralíu létu til skarar skríða gegn nokkrum einstaklingum í nótt, í aðgerðum til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir. Fregnir herma að lögregla hafi ráðist inn á heimili í að minnsta kosti þremur hverfum borgarinnar.

Talsmaður lögreglunnar sagði aðgerðirnar tengjast yfirstandandi rannsókn en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti. Forsætisráðherrann Malcolm Turnbull staðfesti hins vegar í yfirlýsingu að þær miðuðu að því að koma í veg fyrir hryðjuverk í landinu.

Sagðist hann fylgjast náið með framvindu mála.

Samkvæmt fréttastofu ABC var að minnsta kosti einn handtekinn en aðrir miðlar greindu frá því að 40 sérsveitarmenn hefðu ráðist inn á heimili og sprengjusveit fundið grunsamlegan búnað í kjölfarið.

Yfirvöld í Ástralíu eru sögð uggandi vegna mögulegra hryðjuverkaárása og segjast hafa komið í veg fyrir 12 frá 2014. Fimm hafa hins vegar átt sér stað, meðal annars skotárás í Melbourne í júní síðastliðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert