Vilja aðstoð Þjóðverja vegna Oksuz

Hópur Tyrkja heldur á líkkistu með myndum af múslimaklerkinum Fethullah …
Hópur Tyrkja heldur á líkkistu með myndum af múslimaklerkinum Fethullah Gulen 15. júlí síðastliðinn í tilefni þess að eitt ár var þá liðið frá valdaránstilrauninni. AFP

Tyrkir hafa beðið þýsk yfirvöld um að hefja formlega rannsókn á því hvort Adil Oksuz, sem grunaður um að hafa tekið þátt í valdaránstilrauninni í Tyrklandi árið 2016, dvelji í Þýskalandi.

Oksuz er sá næstefsti í röð tyrkneskra stjórnvalda yfir eftirlýsta menn vegna valdaránstilraunarinnar. Hann var handtekinn í Tyrklandi eftir tilraunina en var látinn laus í framhaldinu og er hann nú á flótta.

Meclut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, segir að fregnir hafi borist af því að sést hafi til Oksuz í Þýskalandi og hvetur hann stjórnvöld í landinu til að handtaka hann og framselja til Tyrklands ef þau finna hann.

Fethullah Gulen á heimili sínu í Saylorsburg í Pennsylvaniu.
Fethullah Gulen á heimili sínu í Saylorsburg í Pennsylvaniu. AFP

Tyrknesk stjórnvöld telja að Fethullah Gulen, múslimaklerkur sem er búsettur í Bandaríkjunum, beri ábyrgð á valdaránstilrauninni. Hann þvertekur fyrir það en yfir 50 þúsund manns hafa verið handtekin grunuð um tengsl við Gulen vegna tilraunarinnar.

Tyrkir hafa sett þrýsting á Bandaríkin um að framselja Gulen en án árangurs.

Oksuz er prófessor í guðfræði sem er sakaður um að hafa verið svokallaður „imam“ valdaránstilraunarinnar og skipulagt allar aðgerðir í Tyrklandi ásamt Gulen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert