Ekkert stríð á Kóreuskaga

Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu sagði Suður-Kóreu munu hindra stríð á …
Moon Jae-In forseti Suður-Kóreu sagði Suður-Kóreu munu hindra stríð á Kóreuskaga með öllum mögulegum ráðum. AFP

Það verður ekkert stríð háð á Kóreuskaga. Þetta sagði Moon Jae-In, forseti Suður-Kóreu, í ávarpi í suðurkóreska sjónvarpinu í tilefni af því að 100 dagar eru frá því hann tók við forsetaembættinu.

Sagði Moon Donald Trump Bandaríkjaforseta hafa fullvissað suðurkóresk stjórnvöld um að Bandaríkjamenn myndu ráðfæra sig við þá áður en gripið yrði til hernaðaraðgerða gegn Norður-Kóreu.

„Þrátt fyrir mikinn þrýsting þarf að leysa deiluna við Norður-Kóreu friðsamlega og við deilum þeirri skoðun með Bandaríkjunum,“ sagði Moon.

Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaga undanfarnar vikur og hótuðu stjórnvöld í Pyongyang fyrir skemmstu að skjóta flugskeytum að Kyrrahafseyjunni Gvam, þar sem Bandaríkin hafa herstöð. Trump hét því að slíkri árás yrði svarað af mikilli heift og greindi Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, nú í vikunni frá því að árás á Gvam hefði verið frestað.

Að sögn Moon eru Norður-Kóreumenn ekki jafnlangt komnir með þróun kjarnavopna og þeir hafa gefið til kynna.

„Ögri Norður-Kóreumenn aftur bíða þeirra mun harðari refsiaðgerðir sem þeir munu ekki geta staðist. Ég vara Norður-Kóreu við frekari hættulegum leikjum,“ hefur CNN eftir Moon.

„Við munum hindra stríð með öllum mögulegum aðferðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert