Flúði með börnin inn í bíóhús

Frá vettvangi í Barcelona.
Frá vettvangi í Barcelona. AFP

„Það eru allir frekar lamaðir,“ segir Hadda Hreiðarsdóttir, sem búsett er í Barcelona, um árásina í borginni fyrr í dag þegar sendiferðabíl var ekið inn í hóp gangandi vegfarenda á Römblunni. Að minnsta kosti tveir eru látnir, en lögreglan í borginni segir að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Hadda býr í nágrenni við Römbluna, eða í um fimm mínútna göngufjarlægð frá staðnum þar sem árásin var framin. „Þetta er bara hverfið mitt,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Árásarmaðurinn ekki fundinn

Var hún úti með börn sín tvö þegar eiginmaður hennar hringdi í hana og sagði henni að drífa sig heim því það hefði verið framin árás.

Hadda Hreiðarsdóttir.
Hadda Hreiðarsdóttir.

„Ég var úti með krakkana og þau voru á hjólum þegar maðurinn minn hringdi og sagði mér að við yrðum að drífa okkur í burtu því það hefði verið framin árás og það væri ekki búið að ná árásarmanninum,“ segir Hadda.

Í kjölfarið forðaði hún sér inn í bíóhús á svæðinu með börnin. „Við erum hér enn og verðum örugglega þar til það er búið að handtaka þennan mann,“ segir Hadda, og bætir við að fjölmiðlar í borginni segist nú leita að vopnuðum manni í rauðri peysu.

Vissi að svona árás gæti verið framin

Hadda hafði verið á göngu á Römblunni um hálftíma áður en árásin var framin. Hún hafði svo farið inn og þegar hún kom aftur út fannst henni óvenju fáir á ferli. „Svo allt í einu heyri ég brjáluð læti í sjúkrabílum og þyrlum,“ segir hún.

Hadda segist hafa haft það á bakvið eyrað í þó nokkurn tíma að árás sem þessi gæti verið framin í borginni. „Þetta hefur verið að færast nær manni enda hafa svona árásir verið framdar í Frakklandi og öðrum löndum sem liggja hér að,“ segir hún og bætir við að hún hafi reynt að forðast fjölmenna viðburði vegna hryðjuverkaógnarinnar.

„Ég er í raun búin að vera að bíða eftir þessu en hef ekki trúað því að þetta gæti gerst,“ segir Hadda. „Þetta er náttúrulega hræðilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert